151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:19]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og að hún skyldi draga fram það sem skiptir auðvitað miklu máli, að ef við fáum fleiri skammta en við þurfum að nota þá ganga þeir til annarra þjóða sem á þeim þurfa að halda. Það er afskaplega mikilvægt.

Eins og eðlilegt er annar framleiðslugetan ekki eftirspurninni í upphafi og þess vegna erum við í þessari stöðu. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir siðfræðina í þessu. En mig langar aðeins að koma inn á vísindalegu rökin líka því að auðvitað þarf að framlengja sóttvarnaaðgerðir víða um heim ef mjög mikið misvægi verður í bólusetningunum. En það þýðir líka að veiran heldur áfram á stökkbreytast. Það koma fram ný og ný afbrigði og við gætum fengið hana eins og búmerang til baka til þeirra þjóða sem fyrstar verða í bólusetningunum. Ég held að þeir sem hafa betri þekkingu í þessum málum gætu dregið fram ýmis fleiri rök.

Síðan langaði mig að koma að forgangsröðuninni og spyrja hæstv. ráðherra. Ég sé ekki betur en að þar hafi leiðarljósið verið það sama og meginmarkmiðið í sóttvarnaaðgerðunum í gegnum allt síðasta ár, þ.e. að verja okkar viðkvæmustu hópa og tryggja virkt heilbrigðiskerfi. Það leiðarljós hefur skilað okkur árangri og í rauninni getum við velt fyrir okkur hvernig slík vinna getur leitt okkur í gegnum afléttingu sóttvarnaaðgerða í einhverjum skrefum. Er eitthvað farið að teikna það skipulag upp, ef ég get orðað það þannig?

Þá langar mig að koma inn á að þó að bóluefni verði ekki afhent í nákvæmlega sömu skömmtum og fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir þá sé ég enga ástæðu til annars en að anda rólega og reikna með því að við verðum komin langt með að bólusetja þorra þjóðarinnar um mitt ár, eins og fram hefur komið ítrekað.

En aftur að fyrri spurningu: Erum við með einhverja hugmynd um hvaða fjöldi eða hvaða hópar þurfa örugglega að vera komnir með bólusetningu til að hægt sé að fara að stíga einhver skref í átt að afléttingu? Fer það mögulega eftir smitstuðlinum eða öðrum viðmiðum? Höfum við eitthvað til að miða við? Ég held samt sem áður að við þurfum alltaf að muna að á meðan bólusetning stendur yfir þurfum við að vanda okkur, halda áfram samstöðunni og fylgja sóttvarnaráðstöfunum í takt við bestu leiðbeiningar og þekkingu sérfræðinga okkar miðað við þau markmið sem ég kom inn á.

Hæstv. ráðherra fór vel yfir mismunandi framleiðendur í upphafi. Liggur eitthvað fyrir eða hefur verið birt um hvernig bóluefni frá mismunandi framleiðendum henta mismunandi hópum?