151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar og reyni að snerta á þeim eins og tími vinnst til. Í fyrsta lagi vil ég taka undir það sem hv. þingmaður nefnir varðandi það að okkur öllum hefur reynst farsælt að hlusta á sóttvarnalækni. Hann hefur reynslu og þekkingu af því að glíma við faraldra sem hefur verið okkur gæfa að hlusta á eftir því sem þessum faraldri hefur undið fram. Ég vil nefna það líka við hv. þingmann að það sem heyrir síðan undir stjórnvöld, sama hvort það er í þessu tilviki heilbrigðisráðuneytið eða aðra handhafa stjórnvalds, er að meta tillögur sóttvarnalæknis með tilliti m.a. til meðalhófs. Aldrei mega aðgerðirnar vera harðari en þarf, þær séu þannig að við náum viðhlítandi árangri en ekki að þær haldi aftur af samfélaginu meira en nauðsynlegt er.

Hv. þingmaður nefnir hérna atvinnuleysið og ég er sammála hv. þingmanni í því að það er stærsta viðfangsefni stjórnvalda. Það er stærsta viðfangsefni okkar allra því að við eigum ekki á neinum tímapunkti að sætta okkur við viðvarandi atvinnuleysi þúsunda og tugþúsunda fólks.

Upplýsingagjöf þarf að vera skýr, segir hv. þingmaður. Ég bendi á heimasíðuna bóluefni.is þar sem samningar við hvert og eitt fyrirtæki eru uppfærðir á hverjum degi. Hv. þingmaður lýsir eftir því, eins og ég skil það, að það séu ekki svona margir að tjá sig um þetta en ég vil bara benda hv. þingmanni á það að allir eru viljugir til að tjá sig um þessi mál núna. Óvissan er mjög mikil. Ég skal taka það til skoðunar, ef hv. þingmaður telur það vera til bóta, að ég eigi að gera meiri grein fyrir óvissu heldur en ég hef gert hingað til. En það hefur sannarlega verið rauði þráðurinn í máli mínu alla tíð.