151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kann að vilja taka niður bjartsýnisgleraugun. Ég bið hann samt um að setja ekki upp svartsýnisgleraugun því að hann fullyrðir hér að við fáum færri skammta. Það er rangt. Við fáum alla þá skammta sem við höfum samið um. Það er þannig. Það sem er rétt er að það hliðrast til í tíma og við fáum ekki eins mikið á allra næstu vikum og áformað var, heldur færist það aðeins til. Ég bið hv. þingmann að fara ekki með rangt mál. Við erum, virðulegur forseti, í sjöunda sæti í heiminum að því er varðar bólusetningar, sjöunda sæti af öllum ríkjum heims þannig að við stöndum mjög vel.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um tiltekna hópa. Það er mikilvægt að halda því til haga að íbúar á sambýlum og þau sem eru í dagvistun hafa fengið bólusetningu og munu vera í þeim forgangi. Sóttvarnalæknir raðar þessum forgangshópum, eins og við höfum áður rætt, ég og hv. þingmaður.

Það er kannski einfaldasti hlutur í heimi, eins og ég hef áður nefnt hérna í umræðunni, að halda því fram eftir á að það hefði átt að fara einhvern veginn öðruvísi að varðandi það að tryggja Íslandi aðgang að bóluefnum. Ég er, virðulegi forseti, handviss um það að sú leið sem við fórum, að vera samferða þessum sterku, upplýstu ríkjum í aðgengi að bóluefni, hafi verið rétt ákvörðun. Ég stend við það.