151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:59]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrslugjöfina og þessa umræðu hér. Þegar svona aftarlega er komið í umræðunni er kannski búið að koma inn á flesta þætti en mig langar samt að draga fram nokkur atriði. Í grunninn eru það eftirfarandi atriði: Hvað þýðir bólusetningin? Hvaða áhrif hefur hún? Hvaða skref getum við stigið og hvaða áhrif hefur hvert skref fyrir sig? Og annað slíkt sem mig langar að fá aðeins skýrara fram. Ég tek alveg undir það sem við höfum margoft rætt hér í dag um hvað barátta okkar við þennan faraldur hefur tekist vel, baráttan sjálf. Við höfum ekki þurft að fara í jafn íþyngjandi aðgerðir og önnur lönd, skipulag og dreifing bólusetningarinnar hefur gengið vel, við höfum fengið bóluefnið og það er ekkert upp á okkur að klaga hvernig það hefur gengið. Þá er það bara óvissan um hvað við fáum bóluefni hratt, hvernig öðrum löndum gengur og annað slíkt.

En á meðan þetta allt er að gerast þá vitum við alla vega að um suma hluti er vissa, sífellt fleiri verða bólusettir. Það eru einhverjir ákveðnir hópar. Og hvað þýðir að búið sé að bólusetja forgangshópa? Hvenær verður búið að bólusetja forgangshópa og farið í almenna bólusetningu? Hver er heildarfjöldinn? Hvenær erum við fullbólusett? Ætlum að bólusetja vissan aldur? Svo er einhver hópur sem ekki ætlar að láta bólusetja sig, það er eitthvert áætlað hlutfall. Síðan eru þeir sem eru búnir að fá Covid og þurfa ekki að fá bólusetningu. Hvenær erum við fullbólusett? Hvað þýðir þorri landsmanna? Hvaða tala eða hvaða hópar eru það?

Hvar er heilbrigðiskerfið statt þegar búið er að bólusetja alla framlínustarfsmenn og alla með undirliggjandi sjúkdóma, þennan fyrsta forgangshóp? Er þá viðnámsþróttur þeirra orðinn mun meiri? Gefur það tilefni til annarra sviðsmynda þannig að við getum sagt að þegar framlínustarfsfólkið og þessi áhættuhópur er bólusettur séum við komin í þá stöðu að geta gert eitthvað ákveðið án þess að við getum sagt um hvenær það verður eða eitthvað? En þegar einhver ákveðnir hlutir eru búnir að gerast, hvað þýðir það þá að sá hlutur hafi gerst eða að það markmið hafi náðst? Mér finnst við þurfa að færa okkur aðeins yfir í þetta. Það hjálpar okkur að fá smá vissu eða smá fyrirsjáanleika í allri þeirri óvissu sem við búum við hér, þannig að allar þær fórnir sem við erum búin að færa í þessu íþyngjandi ástandi, öll biðin eftir bóluefninu, öll velgengnin við þetta — hverju mun hún skila okkur og hvenær? Grunnspurningin er kannski þessi: Hvað þýða allar þessar áætlanir og öll þessi markmið okkar?