151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[18:52]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við skulum muna að í þessu dæmi sem hv. þingmaður er að nefna vegna frumvarpsins þá erum við búin að setja lög um lágmarksíbúafjölda. Á þeim grunni hafa slíkar sameiningar farið fram án kosninga, án íbúakosninga. (Gripið fram í.) Jú, það er þannig í sögunni. En það sem ég lagði áherslu á í mínu máli var að við erum auðvitað fyrst og fremst að hvetja til frjálsra sameininga. Við erum að búa til mjög sterka fjárhagslega hvata til þess. Við erum að benda á hversu margir þættir það eru sem kalla hreinlega á sterkari sveitarfélög, öflugri stjórnsýslueiningar. Við setjum þessa fjárhagslegu hvata og svo segjum við að eftir umtalsvert svigrúm í tíma þá hafi menn möguleika á að nálgast þetta með frjálsum sameiningum og það er það sem við viljum. Það er það sem við leggjum áherslu á.

Það sem hefur reynst umdeilt er hvort setja eigi aftur lágmarksíbúatölu. Hún var til til ársins 2011, það er bara í nokkur ár sem við höfum ekki haft hana. Það er það sem þingið þarf að glíma við og skoða hvort til séu aðrar málamiðlanir. Hvatarnir eru nægilega sterkir, sú hagræna greining sem við kynntum til sögunnar segir að það sé allt að því 5 milljarða ávinningur, mögulegur ávinningur á ári, og núvirtur, framreiknaður óendanlega með 3,5% vöxtum, er ávinningurinn 134 milljarðar. Þá spyr ég sveitarfélagahópinn þar sem hefur orðið 30% fækkun á síðastliðnum 25 árum: Getið þið og íbúar þessara svæða verið án möguleikans að sækja þessa hagræðingu til að bæta þjónustuna? Það eru hvatarnir. Svo er bara spurningin: Hvað ætlum við að ganga langt í regluverkinu þar í kring? Og nú er málið komið til þingsins.