151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[20:44]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég ætlaði að bæta örlitlu við fyrri ræðu mína, ég átti eftir að minnast á nokkur atriði. Rætt er um sameiningar sveitarfélaga og að þær eigi að þvinga fram vegna þess að þetta gangi ekki nógu vel. Ég held að sveitarfélögum hafi fækkað verulega síðustu áratugi og þeim fækkar enn. Nýlegar sameiningar eru til vitnis um það, fjögur sveitarfélög voru sameinuð fyrir austan ekki alls fyrir löngu í nýtt sveitarfélag, Múlaþing. Ekki eru nema tvö, þrjú ár síðan sveitarfélög á Suðurnesjum, Sandgerði og Garður, voru sameinuð. Þróunin er í þessa átt og með hvatningu ríkisvalds getur hún haldið áfram og við nálgast markmiðið, sem er stærri sveitarfélög og sjálfbærari o.s.frv. þannig að það er hægt að gera án lögþvingunar. Hver er rétt stærð, frú forseti, á sveitarfélagi? Það er líklega mjög misjafnt. Út frá hagkvæmni séð er ekkert endilega hagkvæmt að sameina tvö mjög dreifbýl sveitarfélög. Þannig næst ekki mikil stærðarhagkvæmni vegna þess að þjónustan er jafn langt í burtu, hvernig sem þetta er reiknað fram og til baka, þannig að það er galli við þetta.

Ég veit ekki betur en að fjárhagsstaða minni sveitarfélaga sé almennt skárri, jafnvel mun skárri, en fjárhagsstaða þeirra stærri. Og af hverju skyldi það vera, frú forseti? Veldur nálægðin og ábyrgðin kannski ábyrgari fjármálastjórn í minni sveitarfélögum? Erum við kannski í þeim stærri komin það langt frá umbjóðendum vegna fjöldans að ábyrgðin verði minni og því kannski farið verr með féð? Hver rétta, besta eða hagkvæmasta stærðin er veit ég ekki. En það má deila um hvort betra sé að sameina út frá fjárhagslegu sjónarmiði.

Sveitarfélögin eru ólík landfræðilega og þegar kemur að samgöngum. Þetta eru þéttbýli og dreifbýli, og firðir, flóar og heiðar aðskilja byggðir og byggðarlög. Samfélagsgerðin er líka mjög ólík og það sem getur hentað einum firði þarf ekkert endilega að henta í þeim næsta við hliðina. Fólk velur að búa á þessum stöðum og einhverjir eru kostirnir. Kostirnir eru kannski ekki þeir, eftir því sem næst verður séð, að sameinast og vera lengra frá valdinu. Kannski er einn af kostunum við að búa í dreifbýlu sveitarfélagi, ég hugsa að það sé nú frekar, að vera nær ákvörðununum, frú forseti, nær ákvarðanatökunni, nær fulltrúum í sveitarstjórn og að geta haft áhrif. Það gæti verið einn af kostunum. Með því að sameina sveitarfélög er e.t.v. verið að rýra þennan kost þar sem fólk er í nálægð og fær að ráða og telur sig ráða meiru en kannski í stærra sveitarfélagi. Það er kannski ekkert endilega hagkvæmast fyrir okkur Íslendinga að hafa höfuðborgarsvæðið eins fjölmennt og það er miðað við dreifbýli á landinu almennt. Það er kannski ekki það hagkvæmasta. Á þá að klippa það eitthvað í sundur? Eigum við ekki bara að láta íbúana sjálfa ráða því? Það held ég að sé nú kannski mergurinn málsins.

Ég vil einnig tala um sveitarstjórnarstigið og ætlaði að gera það en hef ekki tíma til þess. Það er auðvitað komið að því, frú forseti, að íhuga, ef þetta heldur svona áfram, að koma á þriðja sveitarstjórnarstiginu. Það hefur oft verið rætt og ég myndi vilja taka umræðu um það síðar, en þegar valdið fer svona langt frá íbúunum þá þurfum við kannski enn minni einingar víða um land. Kannski er það eitthvað sem koma skal, ég skal ekki segja, en ég vil einnig minna á að þetta frumvarp hefur áhrif á 40 af 72 sveitarfélögum á landinu, (Forseti hringir.) þar af 13 sem eru með færri en 250 íbúa.