151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[13:10]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Ég get alveg skilið hvað hv. þingmaður er að segja, að við þurfum að brjóta hlutina upp til að fá fleiri hugmyndir og búa til frjórri jarðveg fyrir það sem myndi gagnast fyrirtæki eða félagi best. Það sem mér finnst vera að þessu er að nú eigi að reyna í þriðja sinn að setja inn sektarákvæði. Við erum að tala um fyrirtæki sem eru ekki endilega undir hinu opinbera, við erum að tala um fyrirtæki sem eru á frjálsum markaði og ég velti því fyrir mér hvort ríkið eigi að stjórna því hvernig kynjasamsetning stjórna þeirra félaga er með sektarákvæðum. Það er það sem mér finnst vera að þessu. Ef við ræðum um áhugasvið held ég að það hljóti að vera farsælla að ef þú ert stjórnandi í fyrirtæki sem er með múrara í vinnu þá hafir þú nokkra hugmynd um í hverju það felst að vera múrari, frekar en ef þú kæmir bara og fengir stöðu í stjórn þess fyrirtækis á grundvelli kyns. Ég get ekki séð að það sé alfa og omega í því sem við erum að ræða, plús það að mér finnst ekki rétt að setja inn sektir. Ég vil frekar hafa miklu meira eftirlit ef við ætlum að feta þá leið að sjá til þess að hlutirnir verði í lagi áfram.

Ég ítreka enn og aftur að við hljótum að bíða eftir þessum nýjustu tölum til að vita hver staðan er núna, til að vita hvert við eigum að stefna og hvað við þurfum að gera.