151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:57]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það höfum við verið og það er hægt að gera töluverðar breytingar frá upphaflegum tillögum stjórnlagaráðs. Ég nefndi það í ræðunni að ég teldi æskilegast að halda þessu lýðræðisferli áfram og fara með tillögurnar eins og þær voru árið 2013 aftur út til þjóðarinnar og láta vinna úr þeim. Komið hafa álit frá Feneyjanefndinni, frá sérfræðingum. Þar gefst almenningi tækifæri til að ræða þær betur. Hver veit nema þær komi aðeins öðruvísi inn og við getum haldið áfram með þær. Ég nefndi líka áðan að við sæjum ýmsar úrbætur í einstökum ákvæðum hérna sem væri verið að ræða þó að heildarákvæði og heildarhugsunin væri ekki beinlínis í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. Ég gaf upp boltann með það að við myndum a.m.k. skoða það jákvætt á endanum með hvaða hætti við myndum nálgast atkvæðagreiðslu um það. Þannig að ég er miklu opnari maður en þú heldur, hv. þm. Birgir Ármannsson, [Hlátur í þingsal.] og er alveg tilbúinn til að ræða ýmislegt við þig, en frá sumu munum við ekki hvika og það snýst fyrst og fremst um auðlindaákvæðið.

Ég skil reyndar ekki að hv. þingmaður, sem tilheyrir flokki sem ævinlega skal flagga hugmyndinni um hina frjálsu samkeppni og kosti markaðarins, treysti sér aldrei til að styðja slíkar hugmyndir þegar kemur að kannski stærstu atvinnuvegum þjóðarinnar. Það er mér algerlega ómögulegt að skilja. Það er kannski rétt að hv. þingmaður komi og skýri það hérna núna.