151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að mér þykir vænt um hv. þingmann þá gerist það að ég verð leið á að hlusta á svona málflutning sem afvegaleiðir umræðuna eins og var kannski tilgangurinn þegar hv. þingmaður kom hingað upp. Viðreisn hefur ekki með tillögu sinni talað um að innkalla veiðiheimildir. Við höfum þvert á móti talað fyrir því að viðhalda öflugu sjávarútvegskerfi. Við höfum talað um það ítrekað en við höfum líka talað um að tímabinda samninga. Og viti menn, ég þarf ekkert að fara mjög langt aftur. Á ég að benda á ríkisstjórnina 2013–2016? Þáverandi sjávarútvegsráðherra kom með tillögu um tímabindingu samninga til 23 ára. Það var ekki verið að tala um að innkalla eitt eða neitt. Tímabinding samninga fór í gegnum ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins og hvað gerðist? Eitthvað sem kemur engum á óvart, það var stoppað í þingflokki Sjálfstæðismanna. Það er sama hvað er reynt til að tryggja grundvallarréttindi þjóðarinnar, tryggja virka þjóðareign, hvort sem það er í almennum lögum eða í stjórnskipunarlögum, þá er þetta alltaf stoppað. Svo koma menn hingað upp og segja: Þið eruð flokkur sem ætlar að fara að innkalla veiðiheimildir. Það er bara aldeilis ekki þannig. En við erum að tala um að tryggja í stjórnarskrá raunverulega virka þjóðareign með tímabundnum samningum og hv. þingmaður verður að svara mér því líka af hverju hann er á móti því að tímabinda samninga um eina auðlindagrein. Af hverju er það? Af hverju bara að hafa sérreglu um sjávarútveginn? Það þarf að útskýra það fyrir mér á sama tíma og fram kemur frumvarp eftir frumvarp, m.a. frá ríkisstjórninni, sem ég hef verið að benda á, um tímabundin afnot af auðlindum. En það gildir ekki um sjávarútveginn.