151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekki orðið nein stefnubreyting hjá mér frá því að ég sem formaður ráðherranefndar um flóttamannamálin og sem forsætisráðherra lagði til stóraukin framlög til að fást við þennan vanda. Aðalatriði í því var að það fjármagn nýttist sem best til að hjálpa sem flestum. Þetta voru þríþættar aðgerðir, snerust um að taka vel á móti þeim sem fengju hér hæli, snerist um að flýta fyrir því að hægt væri að greina hverjir ættu rétt á hæli og hverjir ekki, og snerist um aðstoð á nærsvæðunum við flóttamenn í flóttamannabúðum.

Hv. þingmaður spyr mig, í framhaldi af því að ég tók undir með ráðherra um að við ættum ekki að taka á móti fleirum en samfélagið réði við, hvaða viðmið væru þar, þá treysti ég mér ekki til að nefna einhverja ákveðna tölu um eitthvert lokamark í því, hvorki varðandi fjölda fólks né fjármagn. Ég held að enginn geti nefnt það. (Forseti hringir.) Aðalatriðið er að þetta gerist á þeim hraða að við ráðum við það.