151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Það liggur við að það sé vorlegt úti núna og þá er gaman að tala um svona hugmyndafræði eins og borgarlínuna, sem er á næstu grösum og er í raun ekki lengur bara hugmyndafræði. Borgarlínan er að verða að veruleika og hún mun skipta miklu máli. Hún mun auka líkurnar á að fólk velji bíllausan eða til vara bíllítinn lífsstíl. Fyrstu áfangarnir sem eru fram undan verða reistir á næstu fjóru til fimm árum, þ.e. leið frá Ártúnshöfða að Hamraborg í Kópavogi í tveimur línum. Með því að borgarlínan verður notuð verða bílar væntanlega færri sem þýðir greiðari umferð, bæði fyrir þá sem nota borgarlínuna og þá sem gera það ekki. Þannig komast allir hópar betur um, þeir sem velja bíl, þeir sem velja að vera bíllausir og þeir sem verða að nota bíl. Takist vel til mun borgarlínan hjálpa okkur inn í nýja tíma þar sem loftgæði á höfuðborgarsvæðinu munu batna. Þetta getur gerst jafnvel þó að nýting ferða verða ekki nema á bilinu 10–20% af heildarfjölda ferða. Samhliða borgarlínunni verða byggðir eða lagðir 18 km af hjólastígum og 9 km af göngustígum. Með aukinni nýtingu borgarlínu með umhverfisvæna orkugjafa munu loftgæðin batna, eins og ég sagði áðan, og þannig styður verkefnið við loftslagsmarkmið stjórnvalda. Það eru spennandi tímar fram undan og ég hlakka til að hafa gott val um hvort ég hjóla, geng eða nota borgarlínu til að komast af Kársnesinu í Kvosina.