151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[13:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast ágætlega við þau viðhorf sem hv. þm. Oddný Harðardóttir hefur uppi. Hún hefur ekkert verið að leyna þeim og hefur gengið hreint og beint til verks í þeim efnum. Ég hygg að henni sé einnig kunnugt um að ég hef haft ákveðnar efasemdir um að yfir höfuð eigi að setja þær kvaðir sem hér eru lagðar til, þ.e. 15% þakið. Ástæðan er sú að við erum hér að búa til alveg séríslenskar reglur um þá þrjá banka sem falla undir það að vera taldir kerfislega mikilvægir. Slíkar séríslenskar reglur gætu orðið til þess, og menn verða að átta sig á því, að draga úr áhuga erlendra aðila á að fjárfesta í íslenskum fjármálafyrirtækjum. Mér hefur stundum fundist eins og það sé töluverður vilji hjá mörgum þingmönnum, þvert á flokka, að tryggja að erlendir bankar t.d. taki sér stöðu og kaupi sig jafnvel inn í íslenskan banka. Séríslenskar reglur að þessu leyti munu auðvitað hafa einhver truflandi áhrif. Hvort það kemur í veg fyrir fjárfestinguna á eftir að koma í ljós. Það er hins vegar hárrétt hjá hv. þingmanni að miðað við það hvernig staðan er núna, að bankarnir eru allir, held ég, undir 5%, mun þessi krafa ekki hafa áhrif á rekstur þeirra eða starfsemi eins og hún er í dag. En hún mun alveg örugglega setja þeim skorður þegar kemur að því að taka áhættusama stöðu í fjármálagjörningum í framtíðinni, t.d. mun hugsanlega reyna á hana þegar bankar lenda í því að taka fullnustueignir sem reiknast inn í þetta hlutfall. Við skulum bíða og sjá.