151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti Ég veit ekki hvort það var stjórnmálamaðurinn Willum Þór Þórsson eða hagfræðingurinn Willum Þór Þórsson sem var að spyrja hérna. Stutta svarið hjá mér er að ég átta mig ekki á, ég er ekki í þeirri stöðu og ætla ekki að gerast spámaður um það, hvernig starfsemi íslenskra banka muni þróast. Ég hygg að þegar við horfum fimm eða tíu ár fram á við, ég tala nú ekki um lengra fram í tímann, verði fjármálastarfsemi, ég tala nú ekki um bankastarfsemi, með allt öðrum hætti en er í dag og hún verður þvert á landamæri. Það verður stóra áskorunin hjá okkur. Hugmyndir okkar um greiðslumiðlun, um starfsemi banka — það verður örugglega einhver bylting í þeim efnum.

Við sjáum bara hvað hefur gerst hér á Íslandi. Útibúum er að fækka. Ég hygg að hv. þingmaður upplifi það sama og ég, ég er hættur að fara í útibú. Ég er eingöngu í netbanka, sinni nauðsynlegum viðskiptum þar. Ég ætla ekki að spá neinu um það. Ég bendi á að þakið er rúmt, það er rétt, sem hv. þm. Oddný Harðardóttir bendir á. Það er svigrúm til vaxtar fyrir fjárfestingarbankahluta viðskiptabankanna og ég fullyrði að með því mun hagkvæmni íslenska bankakerfisins aukast en ekki hitt. Menn verða líka að hafa í huga að ef þeir ætla að setja fjárfestingarbankahlutanum of þröngar skorður mun það hafa neikvæðar afleiðingar á (Forseti hringir.) virkni verðbréfamarkaðarins í heild, ekki bara hlutabréfanna.