151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

minning þeirra Íslendinga sem fórust í seinni heimsstyrjöldinni.

264. mál
[18:05]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni þetta innlegg og ég finn að ég á bandamann í honum; a.m.k. í þessu máli, kannski ekki í öðrum. En það er alltaf gott að finna bandamenn í svona máli. Ég geri mér vonir um að málið nái fram að ganga. Það er ekki seinna vænna. Það er rétt, sem hv. þingmaður bendir á, að auðvitað ættu fleiri aðilar að koma að þessu. Það er fullkomlega eðlilegt að nefna þar listamenn, ekki síst þegar við horfum til þess að hugsanlega verði það niðurstaðan að reistur verði varanlegur minnisvarði sem við getum verið stolt af, til að halda sögunni til haga. Það skiptir okkur máli, ekki bara í þessu heldur yfir höfuð, að við kunnum að meta söguna og sýnum þeim sem á undan fóru og færðu fórnir og fjölskyldum þeirra þakklætisvott.

Mér finnst þetta vera það minnsta, frú forseti, sem við getum gert í þessum efnum og við eigum að vera stolt af því að klára þetta mál. Ég treysti því að málið fái skjótan framgang, m.a. með tilliti til þeirra ábendinga sem koma fram frá hendi hv. allsherjar- og menntamálanefndar.