151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

opinberar fjárfestingar.

[13:34]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það verður seint sagt að ríkisstjórnin hafi gengið rösklega til verks í opinberum fjárfestingum þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Samkvæmt nýjum gögnum hefur opinber fjárfesting dregist saman um 9,3% á árinu 2020 og á árinu 2019 dróst hún saman um 10,8%, en einmitt þá var þörfin fyrir inngrip af hálfu hins opinbera þegar orðin æpandi, enda voru merkin um samdrátt í efnahagslífinu bæði augljós og skýr. Fjöldi loforða er ekki mælikvarði á árangur ríkisstjórnarinnar heldur efndir þeirra og árangur. Ég man ekki betur en að yfirlýsingar ríkisstjórnarflokkanna, um innviðafjárfestingar í tengslum við kosningarnar árið 2017, hafi verið umfangsmiklar. Einn þeirra lofaði 100 milljörðum og mætti því ætla að hann hafi verið tilbúinn með áætlun. Ekki síst þess vegna vekur það sérstaka undrun að sjá hve illa undirbúið framkvæmdarvaldið er fyrir að setja af stað lykilframkvæmdir og fjárfestingar á þeim tíma þegar nauðsynlegt hefði verið að beita þeim verkfærum í hagstjórninni.

Hæstv. ráðherra verður tíðrætt um sterka stöðu ríkissjóðs og hversu vel sú staða reynist okkur nú í kreppunni. Hvernig skilar sú staða sér í aðgerðum, í fjárfestingum í samræmi við vandann?

Herra forseti. Ríkisstjórnin lofaði auknum útgjöldum og sérstaklega til fjárfestinga í innviðum. Það gerði hún í fjárlögunum og fjáraukalögunum. Gögnin sýna svart á hvítu að fjárfestingin hefur ekki skilað sér. Loforðið hefur ekki verið efnt.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig útskýrir hann þennan mikla samdrátt í opinberum fjárfestingum? Er þetta að hans mati vottur um góða hagstjórn í dýpstu kreppu síðari tíma?