151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

opinberar fjárfestingar.

[13:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að greina þessa mynd aðeins betur. Við þurfum að átta okkur á því hvers vegna fjárfestingar sveitarfélaganna skruppu þetta mikið saman, að heildarfjárfesting hins opinbera, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, hefur dregist saman. Við verðum líka að skoða mælingarnar. Mig langar að benda á ýmislegt sem við hér í þingsal höfum talað um sem fjárfestingu, kannski meira fjárfestingu í framtíðinni frekar en eiginlega fjárfestingu samkvæmt hörðustu skilgreiningum hagfræðinnar í efnislegum eignum, og hversu miklu við höfum áorkað í þeim efnum. Ég er hér að tala um rannsóknir og þróun. Ég er að tala um framlögin í samkeppnissjóðina, inn í grunnrannsóknirnar, í Tækniþróunarsjóð. Ég er að tala um fjármögnun ýmissa framtíðartækifæra sem munu skapa störf.

Að öðru leyti endurtek ég þetta: Ríkið jók fjárfestingarstig sitt í fyrra. Það eru sveitarfélögin sem eru eftirbátar. Sumt hefur tafist vegna (Forseti hringir.) breytilegra aðstæðna. Landspítalaverkefnið er t.d. ekki alveg á sama skriði og við ætluðum. Fjárheimildir munu nýtast á þessu ári og við þurfum að gæta að því þegar hagkerfið hefur tekið við sér að vera með (Forseti hringir.) jafnvægi í umsvifum okkar á móts við það.