151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[13:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir vekur hér máls á mjög brýnum þætti heilbrigðisþjónustunnar sem hefur ekki farið hátt en er sannarlega mjög mikilvægur. Þingmaðurinn beinir til mín nokkrum spurningum og sú fyrsta lýtur að áformum stjórnvalda um aukna fræðslu, rannsóknir og vitundarvakningu hjá almenningi og innan heilbrigðisgeirans um afleiðingar ákomins heilaskaða. Í kjölfarið á fundi sem ég átti með Hugarfari fljótlega eftir að ég tók við embætti snemma árs 2018, ef ég man rétt, skipaði ég starfshóp í júní 2018 um ákominn heilaskaða. Hlutverk hans var að greina stöðu þjónustu við fólk sem er með ákominn heilaskaða og setja fram tillögur að úrbótum ef þörf væri á. Starfshópurinn skilaði mér skýrslu í lok júní 2019 en í hópnum voru m.a. fulltrúar frá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hugarfari og fagráði um heilaskaða. Aðdragandi skipunarinnar voru ábendingar sem mér höfðu borist áður um að bæta þyrfti greiningu og skráningu á þessum áverkum og efla sérhæfða íhlutun, meðferð og stuðning við þennan hóp.

Það er mat starfshópsins að ýmislegt vanti á til að greina og skrá betur, sem og að gæta betur að meðferð og stuðningi við fólk með ákominn heilaskaða og að þessi þjónusta sé fullnægjandi á öllum þjónustustigum. Í kjölfar skila skýrslunnar frá starfshópnum veitti ég 20 millj. kr. til Reykjalundar til að efla hópmeðferð þar fyrir fólk með ákominn heilaskaða. Í minnisblaði Reykjalundar til ráðuneytisins, sem barst núna nýverið, kemur fram að einstaklingum með þessa tegund af heilaskaða sem fá þverfaglegt mat og endurhæfingu á taugasviði stofnunarinnar fjölgaði úr 12–15 einstaklingum árlega upp í 25 einstaklinga. Oft er um að ræða mjög langa endurhæfingu, frá tveimur mánuðum í allt að tíu mánuði. Þá voru gerðar breytingar á verklagi þannig að allir sem bíða eftir þjónustu á taugasviði Reykjalundar vegna heilaskaða fá forskoðun, ýmist á göngudeild eða ítarlegt mat á dagdeild. Með forskoðun er hægt að mæta einstaklingum fyrr í ferlinu, greina eðli vandans betur og beina í viðeigandi þjónustu. Þá var eftirfylgd á göngudeild aukin. Reiknað er með að hver einstaklingur fari í tíu viðtöl á göngudeild á ári. Tímalengd slíkrar eftirfylgdar er eitt til tvö ár. Í ráðuneytinu er nú unnið að sérstakri aðgerðaáætlun um þjónustu við þennan hóp sem ég vonast til að skili almennari þekkingu á þjónustuþörf einstaklinganna og betra skipulagi á þjónustunni.

Í öðru lagi spyr þingmaðurinn um það hvernig þverfaglegu endurhæfingarsamstarfi fyrir fólk með heilaskaða og hegðunarvanda sé stýrt milli ráðuneyta og hverju það hafi skilað. Þá er því til að svara að þegar um er að ræða þjónustu fyrir einstaklinga með heilaskaða og hegðunarvanda liggur ábyrgðin á ólíkum stöðum. Það ræðst af því hvort orsök áverkans stafar af sjúkdómi eða slysi en það á hins vegar ekki að skipta máli fyrir þau sem þurfa á þjónustunni að halda. Málið er til umræðu, sérstaklega í grábókarnefnd sem fjallar um skýra verka- og ábyrgðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Ég bind miklar vonir við að sú umfjöllun leiði til niðurstöðu og lagðar verði fram tillögur um samvinnu vegna þjónustu við þá einstaklinga sem í hlut eiga og fjölskyldur þeirra þannig að einu gildi hvort orsökin liggi í sjúkdómum á borð við heilablóðfall eða þá höfuðáverkum eftir slys.

Þingmaðurinn veltir því líka upp hvort áform séu um að bjóða upp á atferlistengda taugaendurhæfingu hér á landi en einstaklingar sem hafa fengið heilaskaða glíma oft við fjölþættan vanda sem krefst mjög sérhæfðrar nálgunar í endurhæfingu. Endurhæfing eftir heilaskaða er einstaklingsbundin og getur tekið langan tíma vegna eðlis þess vanda sem einstaklingurinn glímir við sem getur verið vitræn skerðing, hegðunartruflanir og persónuleikabreytingar. Rannsóknir sýna að þessir einstaklingar þurfa langtímaeftirfylgd til að endurhæfing nýtist sem best. Umræða um atferlistengda taugaendurhæfingu er ný af nálinni hérlendis en fréttir berast af góðum árangri slíkrar meðferðar erlendis frá, bæði eftir ákominn heilaskaða af völdum höfuðhögga og heilablóðfalla. Nýlega var fundur í heilbrigðisráðuneytinu með fulltrúum Heilabrota sem bjóða upp á nýtt úrræði til endurhæfingar fyrir fólk með hegðunarvanda eftir heilaskaða. Endurhæfing og meðferð á vegum Heilabrota byggir á atferlisgreiningu og miðar að því að þjálfa einstaklinga í félagslega viðeigandi hegðun.

Eins og ég nefndi áðan er unnið að aðgerðaáætlun í þjónustu við fólk með ákominn heilaskaða í ráðuneytinu. Ég vonast til þess að sú vinna skili okkur almennri þekkingu á þjónustuþörf þessara einstaklinga og betra skipulagi á þjónustunni. Þar eru allar viðurkenndar meðferðir til umræðu, þar með talin sú sem hér er til umræðu, en við höfum þegar stigið skref í þágu þessa hóps og þau munu verða fleiri.