151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

almenn hegningarlög.

453. mál
[18:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp öðru sinni vegna þess að ég skulda hv. 3. þm. Suðvest. svör sem ég svaraði áðan í andsvörum. Hv. þingmaður spurði hvort ég væri hlynntur hatursorðræðulöggjöf og eins og ég nefndi í andsvari við annan hv. þingmann þá er ég það, já, þótt ég telji núverandi ákvæði gallað. Ég hef bara tæpar fimm mínútur til að tala um þetta og ég þarf miklu meira en það til að fara yfir það efnislega en get vísað í umræður um ákvæðið eins og það var sett á sínum tíma, á þarsíðasta kjörtímabili. Hv. þingmaður spurði einnig hvað ætti þá að gera ef ekki þetta. Það eru ekki einföld svör við því, en þó verð ég að segja að við verðum að byggja samfélag sem er treystandi til að trúa á helförina. Við verðum bara að treysta fólki til að trúa því að jörðin sé hnöttótt. Að mínu mati er tómt tal að huga að lýðræðinu öðruvísi en að sú grundvallarkrafa sé fyrir hendi, frekar augljós og sjálfsögð, en þó með þeim fyrirvara, eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan, að fólk er í eðli sínu mjög lélegt í að greina á milli þess sem er satt og ósatt, ég líka og við öll.

Þá vil ég líka ítreka að takmarkanir á tjáningarfrelsi geta alveg verið réttmætar, eins og ég segi í hvert einasta sinn sem ég ræði þetta. Það er alltaf verið að rökræða við einhvern sem ég þekki ekki sem er að berjast fyrir algjöru tjáningarfrelsi með engum takmörkunum. Það er bara mjög langt síðan ég heyrði það sjónarmið og ég hef aldrei heyrt það hér í þingsal.

En ég vil einnig fara aðeins yfir það sem hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir talaði um þegar hún rifjaði upp það sem er rétt, að það er ekkert nýmæli að við takmörkum einhverja tjáningu sem við teljum réttmæta. Ég skil alveg þann punkt að þetta er systurákvæði sem þegar er til staðar í almennum hegningarlögum, ákvæði sem ég myndi gjarnan vilja laga og gera betra.

En það eru veik rök að mínu mati í íslensku samhengi vegna þess að Íslendingar hafa í gegnum tíðina bannað ótrúlegustu hluti, ekki bara hluti sem eru jafn alvarlegir og helförin. Það er bannað í dag að syngja þjóðsönginn rangt, virðulegi forseti. Það er bara bannað á Íslandi. Það liggur fangelsisrefsing við því. Þannig að við erum úti að aka þegar kemur að tjáningarfrelsinu almennt, jafnvel þótt þetta frumvarp sé kannski skynsamlegt og réttmætt. Klám er enn þá bannað á Íslandi. Eftir því sem ég best veit erum við eina frjálslynda lýðræðisríkið þar sem það er enn þá bannað. Ég skil það svo sem, tabú umræðuefni, og það hafa svo sem ekki verið mikið miklar ástæður til að takast á við það af einhverri alvöru, þótt mig gruni nú að það styttist í það vegna þess að það er framleitt klám á Íslandi og ef lögunum verður framfylgt þurfum við að takast á við þá umræðu og hún endar ekki þannig að við höldum í bannið, ekki hér frekar en annars staðar að mínu mati. En nóg um það.

Ofbeldiskvikmyndir voru bannaðar á Íslandi, reyndar ritskoðaðar þar til á þessari öld, þar til 2003 eða 2006, minnir mig, þegar því banni var skipt út fyrir ný lög sem tóku við af þeim gömlu og það er sama prinsipp þar. Við þurfum að treysta fólki til að horfa á Fight Club og Natural Born Killers án þess að breytast í morðingja. Það er grunnkrafa sem við verðum að hafa gagnvart hinum almenna borgara. Það er grunnkrafa. Ef menntakerfi okkar gerir það ekki að verkum að hinn almenni borgari sé þannig þá þurfum við að laga það. Ef skilaboð okkar um að þetta sé grunnkrafa er ekki nógu skýr þá þurfum við að senda þau skilaboð og segja það ansi hátt. En við gerum það ekki vegna þess að Íslendingar upp til hópa hafa í gegnum tíðina aldrei verið neitt sérstaklega hrifnir af tjáningarfrelsi. Þeir umbera það rétt svo ef þeim tekst að sannfæra sig um að það uppfylli lagaleg skilyrði. Guðlast var bannað á Íslandi til árið 2015 — guðlast. Það var bannað að móðga trúarsannfæringu fólks og það var gert út af allsherjarreglu. Ég vil minna á að það eru alveg til rök fyrir því að banna guðlast en þau eru bara mjög léleg öll.

Ég vildi nefna þetta vegna þess að þegar við dettum í það að fara að réttlæta takmarkanir á tjáningarfrelsi á þeim grundvelli að við gerum það hvort sem er eða að það standist löggjöf þá eru dæmin sem við höfum í gildandi lögum ekki góð, höfum það alveg á hreinu. En að því sögðu fjallar náttúrlega ekkert þessara atriða í sjálfu sér um jafn alvarlegt atriði og helförina. Ég átta mig alveg á því. En það breytir því ekki að rökstuðningurinn þarf að standast og þessi rökstuðningur stenst að mínu mati ekki.

Þá ætla ég að ekki að hafa þetta lengra enda hef ég ekki meiri tíma, virðulegi forseti. En ég þakka fyrir umræðuna og þakka hv. þingmanni fyrir að leggja fram frumvarp sem fær okkur til að ræða þennan uppgang fasismans, vegna þess að það er alvarlegt vandamál sem við mættum ræða miklu oftar og í miklu víðara samhengi og vissulega þrátt fyrir að búa á Íslandi.