151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:37]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega hálftrist að sitja undir orðum meiri hlutans um þetta mál. Hann heldur sig við þá rökvillu, þann strámann, að trúnaður hafi verið brotin. Ég hef ekki enn þá heyrt það rökstutt að trúnaður hafi verið brotin og ég sit í velferðarnefnd sem stendur. Nei, reynt er að skjóta sendiboðann. Þau mæta af fullum þunga með þöggunarbeitingartólin, alla leið innan úr ráðuneytunum sínum.

Ég spyr því, virðulegi forseti: Hvar er ábyrgðartilfinningin? Hvar er auðmýktin gagnvart því starfi sem við eigum að vera að vinna hér í þágu almennings, gagnvart þeim upplýsingum sem fram komu á þessum nefndarfundum? Mér finnst sorglegt fyrir lýðræðið sjálft að meiri hlutinn noti einhvers konar hentisemisfilter á aðra þingmenn, á stjórnarandstöðuna, til að reyna að hafa áhrif á störf okkar. Þau hafa meira að segja skoðun á því hvernig við tjáum okkur hér í ræðustól, að við förum of hratt úr núlli upp í tíu. Þau fara samt sjálf frá núlli upp í tíu við að segja að við séum að fara úr núlli upp í tíu og koma eins inn á það að skoðun hvers og eins þingmanns sé ekki sú sama og þau hafi sjálf. (Forseti hringir.) Til þess er leikurinn gerður. Til þess eru kjörnir fulltrúar almennings.