151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[17:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að almennt talað, og það snýr ekki að Neytendastofu sérstaklega, þegar verið er að endurskipuleggja stofnanir ríkisins með það að markmiði að ná fram aukinni hagræðingu og efla þær, ekki síst til að veita annars vegar neytendum eða einstaklingum og hins vegar fyrirtækjum betri og skilvirkari þjónustu, eigi auðvitað að gæta að því að ekki sé gengið þannig fram að það valdi óþarfa óvissu hjá starfsmönnum. Hins vegar liggur það fyrir og er alveg skýrt að unnið er að endurskipulagningu þeirra mála á sviði neytendaréttar sem eftir eru hjá Neytendastofu. Meiri hluti nefndarinnar hvetur til þess að unnið sé hratt og vel að þeirri endurskipulagningu. Nú vitum við ekki hver niðurstaðan verður í þeim efnum. Það getur verið að skynsamlegast og best sé að neytendaréttur sameinist undir t.d. Samkeppniseftirlitið, án þess að ég sé að boða það með neinum hætti, eða að Neytendastofa haldi áfram. En það hlýtur að vera skynsamlegt að menn skoði rekstur stofnana ríkisins með það í huga að ná fram aukinni hagræðingu. Það er auðvitað bara hluti af eilífðarverkefninu. Ég bendi líka á að Neytendastofa sjálf segir í umsögn til nefndarinnar (Forseti hringir.) að stofnunin mótmæli því ekki að gott sé að endurskoða með reglubundnum hætti stjórnsýslu stofnana (Forseti hringir.) sem fara með framfylgd laga og eftirlit hér á landi.