151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

ákvæði um trúnað í nefndum.

[11:32]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er spurt: Mega gestir vænta þess að til orða þeirra sé vitnað? Það er nú svo að þeir gestir sem mæta fyrir fastanefndir Alþingis eru að biðja um og reiða sig oft og tíðum á stuðning nefndarmanna vegna samskipta við ofurvald ríkisins, íslenska ríkisins, ráðherra, ráðuneytis, stofnana ríkisins. Þeir eru að biðja okkur, fulltrúa almennings á Alþingi, um að aðstoða sig við þá baráttu. Íslenska ríkið hefur allt valdið sín megin. Svo að dæmi sé tekið hefur heilbrigðisráðuneytið fyrir hönd hæstv. heilbrigðisráðherra nú í tvígang sent út opinbera fréttatilkynningu sem birtist að auki á heimasíðu Stjórnarráðs Íslands þar sem sagt er að einstaka þingmenn og forsvarsmenn sveitarfélaga (Forseti hringir.) séu að fara með rangt mál (Forseti hringir.) um rekstur hjúkrunarheimila á Íslandi og samningaviðræður við ríkið. Auðvitað eigum við að rækja skyldur okkar (Forseti hringir.) og styðja viðsemjendur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)