151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

samræmdu prófin.

[12:28]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. En einhver kynni að segja að komið hafi í ljós ábendingar um veikleika í þessu kerfi fyrir þremur árum þegar það brást á sambærilegan hátt og núna, og einhver kynni að segja að ef kerfið er ekki alveg öruggt og ef allt getur gerst í einhverjum tilteknum búnaði er betra að sleppa því að nota hann og nota þá búnað sem bregst ekki, eins og t.d. blað og blýant. Það verður ekki nógsamlega undirstrikað hversu mikilvægt það er fyrir börn og unglinga þessa lands að geta treyst skólakerfinu, að skólakerfið sé fyrirsegjanlegt og traust og áreiðanlegt. Og það þarf náttúrlega líka að einkennast af umhyggju og gleði uppgötvana á tilverunni og lögmálum hennar og sjálfum sér. Nú hafa verið slegin af samræmd próf sem áttu að vera. Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort þar hafi verið um að ræða skyndiákvörðun af kannski svipuðu tagi, eða hvort það sé ígrunduð ákvörðun.