151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[15:15]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hv. málshefjanda fyrir þessa umræðu í dag. Ég vil reyna að nálgast umræðuna út frá þeim spurningum sem hann leggur hér fram og vil byrja á að segja að meginvandi innlendu framleiðslunnar er kannski mjög lítill heimamarkaður. Um leið og sneiðar ganga af heimamarkaði til annarra þá þrengist um og það er rétt, eins og kemur fram í fyrirspurn hv. málshefjanda, að það er svolítið örðugt að skilgreina hversu langt má ganga í þeim efnum. Ég held að það sé grundvallaratriði að við semjum með slíkum hætti að heimildir séu gagnkvæmar og ekki bara heimildir um gagnkvæmni í einhverjum kílóum heldur líka sambærilegar heimildir til reksturs afurðafyrirtækja og annarra heimilda til að halda utan um samkeppnisstöðu innlendu framleiðslunnar. Á það skortir. Ég tek undir með hæstv. landbúnaðarráðherra hér sem fjallar um heimildir sem þyrfti að sækja til að auka samrekstur og verkaskiptingu innan afurðageirans. Ég held að það væri gríðarlega mikilvægt viðbragð í þeirri stöðu sem við erum komin í.

Í öðru lagi spyr hv. málshefjandi hvernig ráðherrann sjái fyrir sér hag mjólkurframleiðanda í þeirri stöðu sem upp er komin. Ég held að það sé grundvallarmál, rétt eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur t.d. lagt áherslu á í samtali sínu eða samningum við Bretland, að við bregðumst við þeirri stöðu þannig að við séum að opna leiðir fyrir það verðefni mjólkur sem nú er að safnast upp, eins og í þessu tilfelli próteinhlutann.

Í þriðja lagi varðandi loftslagsmál ætla ég að gera það að endingu hér að tillögu minni að ég held að langdýrmætasta og markvissasta aðgerðin í loftslagsmálum gagnvart bændum væri að styðja þá til að byggja ábyrgðargeymslur til að bæta nýtingu og meðferð búfjáráburðar. Það minnkar losun, það eykur verðmæti og það bætir búskap.