151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

útvegun bóluefnis og staða bólusetninga.

[13:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni um það. Ég tel einmitt að Ísland hafi ákveðna sérstöðu, bæði hvað varðar árangur í sóttvarnaráðstöfunum og stöðu innviða og m.a. þess vegna var skoðaður möguleikinn á tilraun með Pfizer-framleiðandanum. Ég get fullvissað hv. þingmann um að við skoðum allar mögulegar leiðir til að flýta bólusetningu en erum auðvitað líka öðrum háð, eingöngu vegna þess sem upp getur komið við framleiðslu efnanna, eins og ég kom að áðan.

Aðeins aftur að Danmörku og opnunaráætlunum og -áformum stjórnvalda. Ef við miðum við að veiran hegði sér eins og hún hefur hingað til gert og leggist fyrst og fremst á eldri hópa mun það þýða verulega breytingu þegar 60 ára og eldri hafa verið bólusett. Það sem ég flagga hér eru þau gögn sem við sjáum frá öðrum löndum um að ný afbrigði leggist af auknum þunga á yngri hópa, sem er nokkuð sem við þurfum að taka tillit til í áætlanagerð okkar.

Að lokum vil ég segja við hv. þingmann og aðra hv. þingmenn að Danmörk er að kynna opnunaráætlun sem er þó fjarri því að nálgast það frelsi sem við njótum hér á Íslandi í dag. (Forseti hringir.) Einmitt vegna skynsamlegra sóttvarnaráðstafana okkar höfum við getað létt takmörkunum og höfum getað leyft okkur meira frelsi en nokkur önnur Evrópuþjóð (Forseti hringir.) á undanförnum mánuðum. En að sjálfsögðu munu stjórnvöld leitast við að, og ég tek þá brýningu til mín, halda Alþingi og almenningi eins upplýstum (Forseti hringir.) og mögulegt er um öll þessi mál.