151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[19:42]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni, hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, fyrir að flytja okkur þetta nefndarálit um menntastefnu. Það er gleðilegt að við skulum vera með í höndunum menntastefnu til ársins 2030, þetta er einn áratugur. Hér er farið vítt yfir svið, sett háleit markmið og hakað í flest box. En það er skautað dálítið létt yfir ýmis atriði. Hv. framsögumaður fór yfir nokkur þeirra og í nefndarálitinu koma fram atriði sem er hreinlega sleppt í menntastefnunni sjálfri.

Mig langar aðeins að fjalla um fjölbreytt menningarsamfélag. Hér er því lýst yfir að Ísland sé fjölmenningarsamfélag, það eru einhver áhöld um það, en á Íslandi búa nú um 50.000 innflytjendur, um 14% af þjóðinni, og eru fullgildir þegnar í sjálfu sér. Mér finnst þessi menntastefna ekki taka nægilegt tillit til þess. Það er varla tæpt á því í stefnunni sjálfri en fjallað örlítið um það í nefndarálitinu. Ég spyr hv. þingmann hvort henni finnist þetta tæmandi og ásættanleg úttekt og hvernig þetta hafi verið rætt tæmandi í nefndinni. Eins vantar varðandi námsmatið. Þar er í stefnunni tæpt á þeim sem búa við fötlun og eiga við örðugleika að etja. Það er ekkert nefnt varðandi námsmat fyrir fólk af erlendum uppruna sem öll teikn benda til að fái ekki notið réttar síns, fái ekki notið þeirrar menntunar sem það hefur aflað sér í heimalandi sínu. Hvað segir hv. þingmaður um þetta?