151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að við séum systur í þessum skilningi þegar kemur að því að láglaunafólkið á ekki að axla þær byrðar sem falla til og ójöfnuður á ekki að aukast í kjölfar þessarar kreppu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við gætum þess og stöndum öll saman í því. Ég tel að tónninn sé ekki eins og hv. þingmaður kýs að túlka hann og mér fannst fjármálaráðherra svara því mjög hreinskilnislega þegar hann svaraði hv. þingmanni um það hvort láglaunafólkið ætti að axla þessar byrðar. Það er alla vega skýrt í mínum huga að svo er ekki. Ég hef aldrei staðið fyrir því og geri það ekki. Ég varð mjög hissa þegar Samtök atvinnulífsins báru þetta fram, svo ég taki undir það sem hv. þingmaður sagði varðandi lífskjarasamningana, því að ég tel að þeir hafi verið tímamótasamningar í sjálfu sér og að sjálfsögðu eiga þeir að halda. Ég tel ekki að sú fjármálaáætlun sem hér er undir sé til þess fallin og að þar sé gert ráð fyrir því að lægst launaða fólkið eigi að bera einhverjar sérstakar byrðar umfram einhverja aðra og líklega frekar minni en hitt. Það hefur alltaf verið stefið í þessari ríkisstjórn og það hafa aðgerðir að mínu mati sýnt sem hér hafa verið settar fram og orðnar eru að veruleika. Og ég held að hv. þingmaður hljóti að geta tekið undir það að mjög margar aðgerðir hafa einmitt komið þeim lægst launuðu til góða. En við þurfum að sjálfsögðu að gera betur og ég hef alltaf sagt það.