151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:41]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvar. Varðandi stöðuna þá sagði ég í minni ræðu að staðan væri betri nú en í desember. Hv. þingmaður er ekki sammála því. Þá ætla ég aðeins að útskýra það. Í desember vorum við að miða við spá sem spáði framleiðslutapi, ákveðnu framleiðslutapi. Hagvöxtur er síðan útreikningur á magnaukningu frá þeirri spá. Framleiðslutapið er minna og þess vegna er hagvöxturinn mældur minni í magnaukningu. Þetta veit ég að hv. þingmaður veit og skilur. Varðandi verklagið og áætlunina sem er í gildi, sem við samþykktum í desember, þá get ég alveg verið tilbúinn til að skoða það, þegar við ræðum í hv. fjárlaganefnd, hvernig við högum þeirri vinnu. Ég tek undir með hv. þingmanni um það að það er ekkert endilega sjálfgefið að við tökum bara sama rúntinn aftur.