151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, fyrir ágætisræðu. Í þessari áætlun er ekki að finna áætlanir um hvernig eigi að mæta eldri borgurum og þeim kjaraskerðingum sem þeir hafa orðið fyrir á liðnum árum. Það eru ekki áætlanir um það hvernig eigi að fjölga störfum í því mikla atvinnuleysi sem við stöndum frammi fyrir. Það eru ekki áætlanir um það hvernig við bætum stöðu hjúkrunarheimila í landinu en það er hins vegar áætlun um að bæta fjármunum í loftslagsmálin. Ég persónulega tel mikilvægara að reyna að vinna bug á atvinnuleysinu með því að fjölga störfum með þátttöku ríkissjóðs í samstarfi við einkaaðila heldur en að setja mikla peninga í loftslagsmálin undir þessum kringumstæðum. En það eru misjafnar áherslurnar.

Það er tafla á bls. 102 í áætluninni þar sem fjallað er um aukin framlög til loftslagsmála og það er verið að auka þau í þessari áætlun. Það er eitt af því fáa sem kemur skýrt fram í henni, það er verið að auka þessi framlög um 10 milljarða kr. til ársins 2031, um 1 milljarð á ári frá 2022. Það er líka talað um það í þessari áætlun á bls. 138 að starfsemi hins opinbera hafi árangur að leiðarljósi. Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Vitum við hver árangurinn er af þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar, þessum miklu peningum sem við erum að setja í þennan málaflokk? Taflan á bls. 102 fjallar um framlögin en það er ekkert um þann árangur sem þessi hækkun til loftslagsmála á að skila. Framlögin hafa áttfaldast frá því að ríkisstjórnin tók við. En hvar eru mælikvarðarnir um árangurinn? Þeir liggja ekki fyrir. Er ekki eðlilegt, hv. þingmaður, af því að hann hefur áhuga á ráðdeildarsemi í fjármálum (Forseti hringir.) og hefur komið inn á það í sínum störfum með ágætum hætti, að það liggi ljóst fyrir hver árangurinn er af öllum þessum ráðstöfunum (Forseti hringir.) og þeim miklu peningum sem við erum að setja í þetta?