151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:52]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið og góðar spurningar. Hér vísar hann í rammagrein á bls. 102 um aukin útgjöld til loftslagsmála. Jú, við höfum í hv. fjárlaganefnd stöðugt kallað eftir þessum mælikvörðum. Ég ætla bara að nota tækifærið og koma því að hér í svari mínu að þessi áætlun, eins og hún er sett fram, er góður hagvísir og það eru vandaðar rammagreinar eins og um útgjöld til loftslagsmála og þar erum við að færa okkur nær því að uppfylla skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. En það er hárrétt sem hv. þingmaður segir og ég ætla ekkert að reyna að standa hér og þvælast eitthvað gegn því. Við verðum að fá nákvæmari mælikvarða á það hvaða árangri þessir fjármunir skila en þá að þeir séu hluti af einhverju heildarsamkomulagi. Ég segi það hér og nú: Við munum halda áfram að kalla eftir þessum mælikvörðum.

Svo vísar hv. þingmaður, og er greinilega vel lesinn, í mjög athyglisverða kafla hér um verkefni sem hefur verið vistað í fjármálaráðuneytinu um umbætur í ríkisrekstri. Það er afar athyglisverður kafli og ég bind vonir við þá vegferð, bæði stafrænar lausnir og fleira sem kemur þar fram um umbætur og ákveðna hugsun í opinberum rekstri. Við þurfum að færa ríkisfjármálin og fjárlagagerðina miklu meira inn í þetta, árangurstengja hana og markmiðssetja, binda þær krónur sem við erum að setja í verkefnin mælikvörðum. Ég tek bara undir það með hv. þingmanni.