151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:18]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég fæ þann heiður að vera síðastur í þessari umræðu um fjármálaáætlun áður en við tökum til við að ræða einstök ráðuneyti og stefnu næstu ára á þeirra sviðum og málaflokkum. Ég vil í upphafi segja að mér hefur fundist þessi umræða í dag vera að mörgu leyti ágæt um það sem kemur fram hér í þessari ágætu greinargerð um fjármálaáætlun áranna 2022–2026, þar er vel tekið utan um og rammað inn það stóra verkefni sem við höfum haft með að gera í um ár. Fyrir um ári stóðum við frammi fyrir stóru verkefni. Við brugðumst við með því að endurskoða fjármálastefnu og marka okkur nýja stefnu í opinberum fjármálum. Mig langar í upphafi minnar ræðu að draga fram það sem stendur í þeirri ágætu greinargerð sem fylgir fjármálaáætluninni og þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Fjármálastefna áranna 2018–2022 var endurskoðuð sl. haust vegna áhrifa faraldursins á fjármál hins opinbera og til þess að mynda svigrúm fyrir viðeigandi hagstjórnarviðbragð stjórnvalda. Í ljósi tvísýnu um efnahagsþróun var óvissusvigrúm stefnunnar aukið umtalsvert en svigrúmið má nýta til þess að aðlaga afkomumarkmið stefnunnar að breyttum efnahagshorfum. Í endurskoðaðri stefnu er óvissusvigrúmið allt að 2% af VLF árið 2020 og 3% af VLF árin 2021 og 2022. Samkvæmt þessari fjármálaáætlun mun afkoma hins opinbera nýta helming þess óvissusvigrúms sem gildir á yfirstandandi ári en gangi áætlanir eftir mun ekki reyna á notkun óvissusvigrúmsins á næsta ári. Þannig eru afkomuhorfur hins opinbera árið 2022 í takt við fjármálastefnuna án óvissusvigrúms.“

Áfram segir, virðulegur forseti:

„Nýlega birti Hagstofa Íslands bráðabirgðauppgjör hins opinbera fyrir árið 2020 sem gefur til kynna minni hallarekstur ríkissjóðs og sveitarfélaga en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Þannig hafi halli ríkissjóðs það árið verið um 200 milljarðar kr., eða 6,6% af VLF. Það er um 70 milljarða kr. betri niðurstaða en gert var ráð fyrir þegar horfur ársins voru endurmetnar sl. haust. Bætt afkoma ríkissjóðs árið 2020 skýrist að hluta af jákvæðari efnahagsþróun og sterkari einkaneyslu en gert var ráð fyrir, sem birtist m.a. í auknum tekjum af virðisaukaskatti.“

Virðulegur forseti. Mér fannst mikilvægt að draga þetta fram því fyrir um ári blasti einfaldlega við okkur sú alvarlega staða að við værum að sigla inn í sögulega mestu kreppu sem við höfum nokkurn tímann staðið frammi fyrir. Spáð var um 10,4% samdrætti í landsframleiðslu en niðurstaðan var 6,6%. Ég vil draga þetta fram vegna þess að grunnur að þeirri fjármálaáætlun sem við ræðum nú er fjármálastefna sem við samþykktum fyrir réttum 90 dögum þar sem, eins og áður hefur komið fram í þessari umræðu, festar eru í sessi þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til og stefna sem var mörkuð í tíð þessarar ríkisstjórnar sem m.a. birtist í því að búið er að stórauka ríkisútgjöld til margra þátta í okkar samfélagi, hvort sem við nefnum menntakerfi, heilbrigðiskerfi eða fjárfestingar og bætt samgöngukerfi og svo mætti lengi telja. Við slógum ekki undan í þeim efnum, við bættum heldur í. Við gripum til umfangsmikilla viðbragða, umfangsmikilla aðgerða til þess að vernda heimili og atvinnulíf og viðhalda framleiðslugetu efnahagskerfisins. Kannski er besti vitnisburðurinn einfaldlega sá, virðulegi forseti, að vitna til þess sem fram kemur í þessari ágætu greinargerð, að eftirspurnarsamdráttur var um 1,9%. Ef við berum það síðan saman við kreppu sem við munum mörg mjög vel var sambærileg tala 19,4% í kjölfar efnahagskreppunnar 2009. Á þessu er mikill munur enda er viðbragðið með allt öðrum hætti nú en þá var.

Ég ætla aðeins að draga það fram við þessa umræðu að þær efnahagsráðstafanir sem gripið hefur verið til eru um 25 lagabreytingar og margvísleg úrræði sem standa enn til boða. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti á blaðamannafundi í dag að löggjöfin um þau fjölmörgu úrræði væri enn í fullu gildi og þau stæðu til boða og þetta er árangurinn af því. Það breytir hins vegar ekki þeirri stöðu að við erum stödd í mjög alvarlegum vanda og hér er mikið atvinnuleysi. Við lokum ekki augunum fyrir því hversu mikil vandamál tengjast því. En ég minni líka á að þrátt fyrir þetta mikla atvinnuleysi höfum við viðhaldið launastigi og haldið áfram að verja aukinn kaupmátt í landinu. Allt eru þetta hlutir sem skipta okkur öll máli. Þetta birtist í því, eins og segir í greinargerð með fjármálaáætlun, sem ég vitna nú aftur til, virðulegur forseti, með leyfi:

„Hagkerfið vex að nýju í ár og nær sterkri viðspyrnu árið 2022 gangi væntingar um dvínandi faraldur kórónuveirunnar eftir. Til skemmri tíma ráðast hagvaxtarhorfur ekki síst af því hversu vel tekst að halda faraldrinum í skefjum innan lands og hversu hratt ferðaþjónustan nær vopnum sínum að nýju. Ríkið og Seðlabankinn hafa gripið til fordæmalausra aðgerða til að lágmarka það tjón sem faraldurinn veldur, dreifa því á fleiri herðar og yfir lengra árabil til að styðja við vöxt framleiðslugetunnar. Þessar aðgerðir ásamt sterkri stöðu heimila, fyrirtækja og hins opinbera fyrir faraldurinn hafa dregið mjög úr því framleiðslutapi sem um tíma var óttast að yrði afleiðing faraldursins. Öflugt viðbragð opinberra fjármála, bæði í gegnum sjálfvirka sveiflujafnara og sértækar aðgerðir stjórnvalda, styður því ekki aðeins við hagsæld heldur stuðlar að sjálfbærni opinberra fjármála til lengri tíma litið.“

Þetta finnst mér mikilvægt að við ræðum hér í upphafi þessarar umræðu og við meðferð þingsins á fjármálaáætlun næstu ára til að undirstrika að það skiptir máli hvað við gerum í þessum þingsal og hvaða meðulum við beitum. Þetta vil ég síðan setja í samhengi við það sem hefur líka komið ansi oft upp í umræðunni í dag, þ.e. hvers vegna við erum að horfa til afkomubætandi aðgerða ríkissjóðs til lengri tíma. Það segir einfaldlega þá sögu að við verðum á hverjum tíma að búa þannig um opinber fjármál að við höfum sterkan ríkissjóð, höfum tæki til öflugrar viðspyrnu til að bregðast við óvæntum áföllum. Í nefndri greinargerð þar sem fjallað er um að í efnahagsstefnu þurfi að geta brugðist við stórum áföllum í náttúru og umhverfi, segir, með leyfi forseta:

„Sumir áhættuþættir sem virðast fjarlægir geta gert vart við sig með afar skömmum fyrirvara. Það á ekki síst við um áhættu sem rekja má til náttúrunnar eins og sést hefur af reynslu undanfarinna missera með stórum heimsfaraldri og jarðhræringum á Reykjanesskaga, sem eru þær fyrstu sinnar tegundar í hundruð ára. Náskyld þessum atburðum er ýmis áhætta af völdum loftslagsbreytinga sem kann, þrátt fyrir framfarir í loftslagsvísindum, að hluta til að vera ófyrirséð nú.

Nýlegir atburðir eru þörf áminning um að stjórnvöld þurfa að hafa virkan viðbúnað gagnvart fjölda áhættuþátta sem margir hverjir eru ólíklegir hver um sig en geta haft veruleg áhrif. Slíkur viðbúnaður er ekki síst á sviði efnahags- og ríkisfjármála. Tjón af völdum umhverfisþátta getur kallað á skjót og markviss sértæk viðbrögð eins og í upphafi heimsfaraldursins þegar fjöldi aðgerða var útfærður og innleiddur á skömmum tíma. Forsenda þess er þó að stefna í efnahags- og ríkisfjármálum sé almennt varfærin og veiti svigrúm til skjótra viðbragða þegar á þarf að halda. Tilgangur þess að stöðva hækkun skulda sem hlutfall af landsframleiðslu á seinni hluta tíma fjármálaáætlunar er ekki síst, og jafnvel fyrst og fremst, að geta brugðist við áföllum af þessu tagi.“

Virðulegur forseti. Ég hef reynt að ramma inn þrenn mikilvægustu skilaboðin sem ég vildi koma á framfæri í fyrri umræðu þessarar þingsályktunartillögu. Það hefur þrátt fyrir allt ræst betur úr en við óttuðumst fyrir ári. Í öðru lagi, vegna sterkra viðbragða og markvissra aðgerða, höfum við náð að grynnka lægð efnahagslífsins og við erum að mæta núna til næstu ára með um 100 milljarða meiri landsframleiðslu í grunninn til að vinna með. Og í þriðja lagi hef ég reynt að varpa ljósi á það að við þurfum að horfa til þess tíma sem stefnutímabilið er til að byggja aftur upp undirstöður ríkissjóðs, stöðva skuldasöfnunina til að vera í stakk búin til að bregðast við óvæntum áföllum, sem eru örugglega ekki að dynja á okkur í síðasta sinn. Þetta held ég að sé ákaflega mikilvægt veganesti fyrir hv. fjárlaganefnd þegar hún tekur núna þessa fjármálaáætlun og þingsályktunartillögu til meðferðar og góð skilaboð að hafa í farteskinu. Það er akkúrat þessi umgjörð, þessi verkfæri sem hv. fjárlaganefnd verður að vinna með á næstu vikum í sinni meðferð með þingmálið og draga síðan fram í nefndaráliti, þegar sá dagur kemur, hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum.