151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:35]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er auðvitað ekki rétt að ekkert hafi verið gert. Ég fór ítarlega yfir það í fyrra svari hvernig aðgerðir okkar hafa einmitt beinst að þessum hópum, tekjulægstu hópunum, hvort sem um er að ræða skattkerfisbreytingar, barnabætur, húsnæðisstuðning. Við höfum verið að styðja sérstaklega við leiguhúsnæði á vegum verkalýðshreyfingarinnar með stofnframlögum til þess að bæta húsnæðisöryggi láglaunafólks í þessu landi, sem hefur einmitt verið vandamál undanfarin ár og áratugi. Við höfum verið að hækka atvinnuleysisbætur, lengja tekjutengdar bætur o.s.frv. Það er auðvitað ekki svo að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi ekki beinst að þessu fólki. Ég fór yfir breytingar á örorkukerfinu þar sem 4 milljörðum hefur verið varið í það verkefni annars vegar að draga úr skerðingum og hins vegar að draga úr skerðingum milli bótaflokka til að lyfta tekjum hinna tekjulægstu í hópi örorku- og ellilífeyrisþega. Þannig er þessi staða. Ég get verið sammála hv. þingmanni að við erum ekki komin að einhverjum verklokum í því verkefni að styðja betur við tekjulægstu hópana. Það er svo sannarlega ekki þannig og það er enn verk að vinna í því.

Við getum rætt líka þau sem þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem er mjög mismunandi milli sveitarfélaga. Það þyrfti að ræða það að setja einhvers konar viðmið fyrir sveitarfélögin til að fylgja í þeim efnum þannig að tryggð séu ákveðin lágmarksviðmið. Við getum rætt líka um stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði. Við kynntum til sögunnar ný hlutdeildarlán til að styðja betur við ungt fólk til að komast inn á húsnæðismarkað því það er enn þá þungt verkefni fyrir ungt fólk.

Ég get verið sammála hv. þingmanni um að verkefnin eru enn þá ærin í þessu máli og það er mikilvægt að halda áfram á þessari braut til að tryggja hér jafnaðarsamfélag. En það er ekki hægt að segja að ekkert hafi verið gert og það er ekki hægt að halda því fram að ríkisstjórnin hafi ekki beint aðgerðum sínum sérstaklega að þessum hópum því það hefur hún gert.