151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi það að hv. þingmaður vonast til að kolefnisjöfnunarverkefnin taki ekki of langan tíma, þá er byrjað að vinna í mörgum þeirra. Þau eru komin í gang, þannig að það er ekki eins og þetta liggi allt niðri þó svo að við eigum eftir að skilgreina betur mælikvarða og leiðir að markmiðinu. Sumt er bara komið á fulla ferð og gengur vel og bændur komnir af stað o.s.frv. Stærsta breytingin sem orðin er í þessu er fyrst og fremst hugsunin, bæði í stjórnkerfinu en ekki síður í atvinnugreininni sjálfri.

Varðandi fiskveiðieftirlitið þá er ég ekki að ræða einstakar stofnanir, við erum að ræða fjármálaáætlun til lengri tíma. Varðandi fiskveiðieftirlitið í heild sinni þá ætlum við að leggja fram, vonandi á þessu þingi, frumvarp til breytinga á fiskveiðieftirlitinu. Ég hef verið talsmaður þess að við getum nýtt okkur m.a. tæknina til að draga úr kostnaði og auka skilvirkni eftirlitsins. Talið hefur verið að við þyrftum styrkari lagaheimildir til þess. Það gefur okkur færi á því að spila með öðrum hætti úr sömu fjármunum og hafa virkara eftirlit. Það eru ýmsir þættir sem við getum nýtt til að mæta þeirri hagræðingarkröfu sem gerð er á allar ríkisstofnanir.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir, við sjáum hér ekki auknar fjárveitingar í beint fiskveiðieftirlit. Það er alveg hárrétt og ég hef aldrei dregið dul á það. En þó að AVS-sjóðurinn geti ekki veitt styrki þá er fjármögnunin er ekki farin. Matvælasjóður tók yfir AVS-sjóðinn og ef Fiskistofa er með verkefni sem lúta að fiskveiðieftirliti og tengjast matvælaframleiðslu o.s.frv., þá getur hún með sama hætti sótt í þennan nýja sjóð og hún sótti í hinn sjóðinn þó að öðruvísi verði unnið úr því. (Forseti hringir.) En AVS-sjóðurinn og aðrir sjóðir eiga ekki að vera til þess að nýta í rekstur (Forseti hringir.) viðkomandi stofnana. Það verða menn að gera á allt öðrum forsendum.