151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[22:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Af því mætti ráða að sjávarútvegsfyrirtækin í landinu greiddu engin gjöld til ríkisins önnur en veiðigjald. Þegar rætt er um að það sé tap fyrir ríkið í þessum samanburði, að útgerðin greiði ekki nema 7,5 milljarða til samneyslunnar, þá ætla ég að benda hv. þingmanni á að skattspor sjávarútvegsfyrirtækjanna á Íslandi lætur nærri því að slaga hátt í 80 milljarða á hverju ári, þ.e. það sem þessi atvinnugrein dregur inn í ríkiskassann. En af einhverjum ástæðum horfa menn alltaf fram hjá því að þessi atvinnugrein greiðir skatta og skyldur. (BLG: Eins og allir aðrir.) — Eins og allir aðrir. En til viðbótar því er þetta gjald lagt á atvinnugreinina ásamt fleiri gjöldum eins og kolefnisgjaldi sem leggst sérstaklega þungt á þessa atvinnugrein.

Stefna ríkisins og ríkisstjórnarinnar varðandi veiðigjöldin liggur alveg fyrir. Búið er að lögfesta með hvaða hætti þessi gjöld eru lögð á. Það er Skatturinn sem reiknar það út. Við erum búin að leggja veiðigjaldsnefndinni sem skipuð var þremur fulltrúum sem ráðherra sjávarútvegsmála skipaði, en það kerfi er búið að leggja af, það er búið að færa þetta út úr ráðuneytinu og Skatturinn leggur þetta á samkvæmt skattskilum fyrirtækja sem í þessari grein starfa. Það er lagður 33% skattur á afkomu sérhverrar veiðiferðar. Mér þykir það há tala, öðrum finnst hún of lág og aðrir vilja hafa hana miklu hærri. Þetta varð niðurstaða þingsins. Þetta er skattur sem leggst á afla sérhverrar veiðiferðar og er hið svokallaða veiðigjald (Forseti hringir.) og hefur verið túlkað með þeim hætti að þetta sé aðgangsmiðinn fyrir það að draga afla að landi. (Forseti hringir.) Ég ætla bara ítreka að skattspor atvinnugreinarinnar leggur til allra annarra þátta í rekstri ríkissjóðs.