151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Í fyrsta lagi, eins og hv. þingmaður veit, voru 1.350 millj. kr. til viðbótar samþykktar inn í rekstur hjúkrunarrýma á þessu ári til að geta bætt við 90–100 rýmum vegna brýnnar þarfar. Af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um skýrsluna sem Gylfi Magnússon var í forystu fyrir sýnist mér á mínu dagatali að það muni takast að halda skilafund fyrir páska eftir vinnu þessarar nefndar. Það er af heilum hug sem ég hef alltaf sagt að mikilvægt væri að greina raunkostnað við rekstur hjúkrunarheimila en um leið að horfast í augu við að þetta er ekki einfalt mál. Það er ekki eitt verð sem hentar alls staðar. Það er mismunandi hjúkrunarþyngd, það eru mismunandi rekstrareiningar. Það er mismunandi fjarlægð frá annarri þjónustu, hvort sem það er spítali eða heilbrigðisstofnun, heilsugæsla, hversu öflug er heimahjúkrun o.s.frv. Við höfum verið að ráðstafa auknu fé til heimahjúkrunar í góðu samstarfi, til að mynda við Reykjavíkurborg, og ég er sérstaklega ánægð með það samstarf vegna þess að þar höfum við verið samstiga í því að einhenda okkur í að bjóða fjölbreyttari úrræði til þess að fólk geti verið lengur heima. En skýrsla Gylfa Magnússonar og sú vinna var auðvitað fyrst og fremst hugsuð til þess að við værum með skýrari mynd af því hver raunverulegur kostnaður væri við rekstur hjúkrunarrýma.