151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að ég er algerlega sammála því hversu mikilvægt það er að bæta geðheilbrigðisþjónustu í samfélaginu enda höfum við bætt inn í útgjaldaramma geðheilbrigðismála nálægt milljarði á ársgrundvelli á þessu kjörtímabili, auk þess 540 milljónum á árinu 2020 og aftur á þessu ári, sérstaklega vegna Covid. Það er mjög mikil efling geðheilbrigðisþjónustu á þessu kjörtímabili og öll geðheilsuteymin eru fullmönnuð. Ég veit að hv. þingmaður hefur sérstakan áhuga á því sem lýtur að samningum við sjálfstætt starfandi sálfræðinga og það hef ég líka. Mér finnst miður hvernig þingflokkur Viðreisnar hefur rætt þau mál vegna þess að það orðfæri að þessi samþykkt Alþingis sé ekki fjármögnuð er einfaldlega ekki samkvæmt staðreyndum málsins. Það sem Alþingi samþykkti var að hægt væri að ganga til samninga við sálfræðinga eins og aðra heilbrigðisstarfsmenn um heilbrigðisþjónustu sálfræðinga eins og annarra og það er algerlega sjálfsagt og eðlilegt að það sé gert. Það var gert í lögum um sjúkratryggingar, eins og hv. þingmaður veit. Ég lagði áherslu á það að ráðstafa strax á þessu ári 100 milljónum í að hefja þá vegferð að semja við sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Þingflokki Viðreisnar hefur þótt einhvers konar aðhlátursefni og aðfinnsluefni að það skuli hafa verið gert og mér finnst það líka mjög niður og mér finnst það ekki góður málflutningur. Það verður að taka höndum saman (Forseti hringir.) varðandi sálfræðiþjónustu og það höfum við gert í gegnum heilsugæsluna, það höfum við gert í gegnum geðheilsuteymin og það munum við gera með ört vaxandi samningum við sjálfstætt starfandi sálfræðinga.