151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:15]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og góðar spurningar. Þegar hv. þingmaður spyr hvort það sé alveg tryggt að hagsmuna sé gætt miðað við einhverja fjármuni, sem er svolítið opin spurning, þá er náttúrlega erfitt að svara því.

Hins vegar er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru ærin verkefni fram undan. Hann nefndi sérstaklega viðskiptamálin og ég kom aðeins inn á þau í ræðu minni, og sömuleiðis annað mikilvægt, sem er borgaraþjónustan. Við höfum lagt af stað t.d. með breytingu á lögum um Íslandsstofu, það þarf ekki bara að gera breytingar á lögunum til að gera hana skilvirkari heldur er hugmyndafræðin mjög skýr, þ.e. að reyna að samþætta þá þjónustu eins mikið og hægt er. Þýðir það að utanríkisþjónustan eigi að gera það sem Íslandsstofa gerir eða Íslandsstofa eigi að gera það sem utanríkisþjónustan gerir? Nei, það þýðir það ekki. En ég held hins vegar að þó að verkefni séu ólík sé enginn vafi á því að saman vinna þessar stofnanir betur, og þá með atvinnulífinu, heldur en ef verkefnin eru mjög hólfaskipt.

Verkefni okkar á næstu árum, sem aldrei fyrr, jafnvel þó að við náum okkur hratt út úr þeirri stöðu sem við erum í núna, er að finna leiðir til að nýta fjármuni með eins góðum hætti og mögulegt er, það er alveg ljóst. Ég hef verið mjög ánægður með þá þróun sem verið hefur eftir að við breyttum lögum um Íslandsstofu. Samstarfið er miklu betra, það var svo sem alltaf gott en það er orðið miklu nánara. Ég held að hugmyndir sem við ætluðum að vera búnir að framkvæma en gátum ekki, t.d. að ráðuneytið og stofnunin væru á sama stað — ég held að það muni skila sér þótt erfitt sé að greina það í betri árangri í þessu starfi. En stóra málið er bara hvort niðurstaðan verður nákvæmlega sú sem hún er núna eða hvort hún þróast eitthvað á leiðinni, en það liggur alveg fyrir að við þurfum að nýta fjármunina afskaplega vel. En það sem ég kallaði eftir í ræðunni var að mér finnst vanta aukinn sveigjanleika í opinbera kerfið. Það kostar peninga að hafa ekki sveigjanleika í opinbera kerfinu.