151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[15:59]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég myndi kannski vilja bæta því við mína fyrri ræðu að það megi og eigi og verði að líta til hagsmunanna sem eru að baki í einstökum þingmálum. Ég er eðlilega upptekin af því máli sem var lagt fram í nóvembermánuði og varðar réttarbætur til að verja börn gegn barnaníði á netinu. Þetta mál er látið liggja mánuðum saman. En hinn punkturinn er síðan líka um tímastjórnunina, um vinnulagið. Hvað segðu menn ef svona vinnumenning tíðkaðist í einkafyrirtæki, að tefja mál sem eru fullbúin, að draga úr framleiðni, viljandi og vitandi vits, að minnka afköst, draga úr þeim með markvissum hætti, að skila verri og hægari árangri? Í þessum málum er birtingarmyndin sú að við erum að tefja og draga úr réttarbótum.