151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[16:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegi forseti. Ögn í viðbót varðandi þetta vinnulag hjá stjórnarflokkunum. Í október síðastliðnum töluðu fulltrúar stjórnarflokkanna um það sem sérstaklega þreytandi tegund af lygum þegar fólk sem veit betur heldur fram þvættingi. Þetta var þegar stjórnarandstaðan brást við fréttum af því að ræddur væri möguleikinn á afmörkuðu svæði fyrir fólk sem vísa ætti úr landi. Þetta þótti vera lygi og þvættingur vegna þess að ekki væri stafkrókur um slíkar fyrirætlanir í þingmálaskrá, í sömu þingmálaskrá og minnist ekki orði á tvö af þeim endurfluttum málum sem við ræðum hér í dag. Hvort er það lygi og þvættingur eða ekki að vísa til fyrirætlana sem ekki koma fram í þingmálaskrá? Stjórnarliðar þurfa að gera sér upp einhverja skoðun á því og hætta að fella mál bara til að fella þau vegna þess að þau koma frá röngum flokkum.