151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[16:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Þetta eru óboðleg vinnubrögð, svo óboðleg að ég kem til baka úr fæðingarorlofi til að mótmæla þeim. Nei, reyndar ekki alveg. En mér þykir leitt að ríkisstjórnin, sem stærir sig af styrkingu Alþingis í stjórnarsáttmála sínum, skuli hnupla þessum málum frá stjórnarandstöðunni til að geta skreytt sig með stolnum fjöðrum í stað þess að vinna með stjórnarandstöðunni, í stað þess að vinna í breiðari sátt um málin. Himinn og jörð munu ekki farast þótt stjórnarandstaðan fái að koma góðum málum í gegn í góðu samstarfi við ríkisstjórnina. Það sýnir bara að ríkisstjórnin getur unnið með fólki sama hvorum megin það stendur, í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég hefði haldið að það væri eitthvað til að hreykja sér af, til þess að vera stoltur af, í stað þess að taka góð mál og gera þau að sínum og láta eins og hin hafi ekki verið nógu góð fyrir. Það er bara ekki rétt. Við sjáum það á þessum málum hvað þau eru fullkomlega sambærileg við þau mál sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt fram. Það var ekkert að þessum málum, þau komu bara frá röngu fólki.