151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Strandveiðar hefjast 3. maí nk. Þátttaka hefur aukist mikið í veiðunum á milli ára og í ljósi atvinnuástandsins má búast við því að útgerðum fjölgi enn frekar í sumar. Samkvæmt reglugerð er viðmiðun til strandveiða 10.000 tonn af þorski sem ætlað er að nægja fyrir þá 48 daga sem stunda má veiðarnar. Á síðasta sumri þurfti að stöðva veiðarnar 19. ágúst þar sem aflaviðmið dugði ekki til að tryggja veiðarnar út mánuðinn. Ég tel það vera mjög mikilvægt að tryggja afla þessa 48 daga út ágúst og þannig var uppleggið í því að breyta kerfinu í 48 daga yfir sumarið. Ég skora á hæstv. ráðherra að vinna að því.

Það eru einnig uppi áhyggjur um aukinn meðafla í ýsu. Ýsuveiðar hafa gengið mjög vel og útgefnar veiðiheimildir voru auknar á fiskveiðiárinu 2019 og 2020 um 9%. En skapast hafa mikil vandræði hjá línuútgerðum smábáta til togara við að nýta útgefnar veiðiheimildir, og heimildir í ýsu eru núna nær uppurnar. Nánast hvar sem borið er niður í þorskveiðum veiðist ýsa sem meðafli og sums staðar svo mikið að hún er ráðandi í aflasamsetningu. Við þessu þarf að bregðast. Það er líka áhyggjuefni að línuívilnun fyrir dagróðrarbáta, sem skilað hefur fjölmörgum störfum, hefur minnkað um þriðjung. Núna horfum við fram á að hún hefur verið skert úr 3.000 tonnum í 1.131 tonn á síðastliðnum tveimur fiskveiðiárum. Þetta er auðvitað mikill skellur og veldur erfiðleikum hjá fjölmörgum útgerðum og atvinnufólki í landi. Ég vísa því til hæstv. ráðherra að skoða þessa þætti vel.