151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:38]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að eitt af þeim stóru atriðum sem varð til þess að Viðreisn varð til var það að mjög mörgu fólki ofbauð að við fengjum ekki að leiða þessi mál til lykta. Ég veit að hv. þingmaður veit það mætavel að gefin voru loforð fyrir alþingiskosningar um að þessi mál yrðu til lykta leidd. Þau voru spiluð hér í hátölurunum á Austurvelli trekk í trekk, orð forystumanna Sjálfstæðisflokksins þess efnis. En það var svikið. Það var mjög mörgum sem ofbauð að við fengjum ekki að klára þetta. Ég get alveg fallist á að það var stór kveikja að því að Viðreisn varð til. Það er ekki nokkur einasti vafi. Hv. þingmaður veit það líka að Viðreisn stendur fyrir mjög margt annað en að ganga í Evrópusambandið en aðild að því hefur svo marga hluti í þörf með sér að það er mikil smættun og einföldun á hlutunum að segja að einhverjir séu nánast einsmálsflokkar af því að Evrópusambandsmálin eru ofarlega á dagskrá hjá viðkomandi flokki. Aðild að Evrópusambandinu felur svo margt í sér að það myndi fylla heila stefnuskrá bara eitt og sér þannig að það er í hæsta máta ósanngjarnt að segja að menn séu fixeraðir á eitt mál.

Varðandi hina spurninguna: Er mikill áhugi hjá Viðreisnarfólki? Já, hann er mikill. Nýjustu kannanir benda til þess að það séu, ég held að ég muni þetta rétt, rétt um 70% stuðningsmanna (Forseti hringir.) Viðreisnar sem vilja aðild að Evrópusambandinu.