151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[17:58]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur tölur, ekki alveg á hreinu. Það eru 30% sem eru fylgjandi því að við sækjum um Evrópusambandið, 40% eru á móti, óákveðnir eru 30%. Enn og aftur sýnir þessi umræða að það er verið að leika sér hér að tölum í þágu málstaðar. Gott og vel, það er svo sem ekki nýtt af nálinni. En bara svo að því sé haldið til haga þá eru 30% með, 40% á móti og 30% eru óákveðin.

Ég vil líka minna á það sem gerðist hér þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ætlaði sér, til ákveðins heimabrúks eins og ég talaði um hér áðan, að draga umsóknina til baka. Þá þorðu menn ekki að fara með það í gegnum þingið. Það voru mótmæli hér úti. Það voru 57.000 sem skrifuðu undir þá yfirlýsingu að það ætti að halda áfram. Það sem við erum að reyna að segja, og ég vil hvetja fólk hér til að skoða, er hvort þetta geti ekki verið leiðin til að klippa okkur aðeins út úr þessari sjálfheldu sem við erum í, leyfa þjóðinni að kjósa um framhaldið. Það er í anda þess sem flokkur utanríkisráðherra lagði til á sínum tíma. Það er ekkert fjarri hugsjónum margra, sem eru þó andsnúnir Evrópusambandinu, að fara þá leið, leyfa þjóðinni að ákveða þetta. Þegar við lítum til Brexit held ég að þetta eigi að vera mjög mikið hagsmunamál fyrir ungt fólk, að dyrum sé ekki lokað eins og íhaldsflokkarnir vilja af því að þeir vilja loka dyrum. Það eru miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir ungt fólk að halda þessu opnu. Við sáum það í Brexit að 70% þeirra sem voru 25 ára og yngri greiddu atkvæði á móti því að Bretland yfirgæfi fjölþjóðasamstarfið innan ESB, 70% af ungu fólki. (Forseti hringir.) Ég tel því mikilvægt að við sem erum komin á miðjan aldur og jafnvel vel það höldum tækifærum opnum fyrir unga fólkið en lokum þeim ekki.