151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

viðurkenning á Anfal-herferðinni sem þjóðarmorði á Kúrdum.

592. mál
[19:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar ágætu hugleiðingar. Ég hef reyndar spurt mig að þessu sjálfur líka, t.d. varðandi það sem ég nefndi í minni ræðu, fjöldamorðin á Armenum af hálfu Tyrkja, kristnum Armenum, hvers vegna svo erfiðlega hefur gengið að koma þeirri tillögu hér í gegnum þingið. Það eru fjölmargar þjóðir sem hafa samþykkt þá tillögu en það er alveg ljóst að það er eitthvert hik og það skrifast væntanlega á hagsmuni. Bandaríkjamenn hafa lengi vel ekki viljað viðurkenna þjóðarmorðið á Armenum. Það er mjög líklega vegna þess að þeir vilja ekki styggja Tyrki. Þeir hafa ákveðinna hagsmuna að gæta gagnvart Tyrkjum, aðstoð þaðan varðandi hergagnaflutninga og annað slíkt, og þeir vilja ekki styggja þá. Það er miður að slíkir hagsmunir skuli koma í veg fyrir að þjóðríki viðurkenni þessa glæpi vegna þess að það sjá allir að verknaðurinn átti sér stað og þær hörmungar sem það fólk hefur gengið í gegnum og hve margir eiga um sárt að binda í þessum efnum, eins og t.d. varðandi fjöldamorð á Kúrdum sem er okkur ótrúlega nálægt.

Hvað getum við gert til að breyta þessu, spyr hv. þingmaður. Ég hef svo sem ekki einfalt svar við því. Að sjálfsögðu er þetta málefni þar sem skiptir mjög miklu máli að stóru aðilarnir á alþjóðavettvangi, stóru þjóðirnar, taki það skref sem þarf til þess að viðurkenna svona hluti eins og Bandaríkjamenn hafa gert og þá fylgja aðrar þjóðir í kjölfarið. (Forseti hringir.) En mikilvægasti vettvangurinn til að fá svona ályktanir samþykktar er væntanlega Sameinuðu þjóðirnar, myndi ég ætla, og að sjálfsögðu á að reyna að styðja við bakið á því.