151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:43]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir andsvarið. Það var í raun dapurlegt að heyra orðræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar í Miðflokki, að hann skyldi amast við þeirri viðleitni að bæta þjónustuna, bæta gæðin, bæta viðmótið gagnvart þessum þjónustuþegum sem eru algerlega ókunnugir íslensku samfélagi í þeirri viðleitni að greiða götu þeirra til þess að þeir geti öðlast eðlilegt líf, sótt heilbrigðisþjónustu, sótt atvinnu, sótt nám, nýtt sér samgöngur og annað eftir því. Eins og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir kom inn á erum við ekki að fjalla um það hversu margir innflytjendur, flóttamenn, koma til Íslands. Það er gert á öðrum vettvangi.

Mig langaði aðeins að spyrja hv. þingmann: Þetta frumvarp snertir fyrst og fremst heilbrigðisráðuneytið, Fjölmenningarsetur og flóttafólk á Íslandi. Það er nefnt hér í frumvarpinu að heilbrigðisráðuneytið eigi t.d. ekki lengur neinn fulltrúa í innflytjendaráði sem það átti áður og fyrr. Félagsmálaráðuneytið á tvo fulltrúa en í ljósi þess að heilbrigðisþátturinn er svo mikilvægur er ekki eðlilegt að dálítið stíft sé unnið að því að fá þarna inn fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins? Það er vikið að þessu í nefndarálitinu og þetta er lagt til en ekki var tekin sú ákvörðun að gera þær breytingar á lögunum á þessu stigi.