151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

Þingsköp Alþingis.

80. mál
[14:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð ekki það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það felur annars vegar í sér að sett sé inn vísiregla, eins og það er kallað, um kynjahlutföll í nefndum þingsins og hins vegar fortakslausa skyldu til að gæta að kynjahlutföllum í sambandi við nefndir sem Alþingi kýs sem eru utan þings. Ég tel ástæðulaust að hafa reglu af þessu tagi í þingsköpum. Þingflokksformenn hafa að jafnaði á undanförnum árum leitað eftir því, án þess að til þess væri lagaskylda, að jafnrar stöðu kynja sé gætt eins og kostur er í nefndum af þessu tagi. En með því að setja þetta inn í þingsköp finnst mér horft fram hjá því grundvallarsjónarmiði að einn flokkur getur ekki sagt öðrum flokki fyrir verkum um það hvaða fólk er kosið í einstakar nefndir, (Forseti hringir.) hvaða fulltrúar eru þar fyrir þann flokk. Því tel ég best að þetta sé gert án þess að sérstaklega sé vikið að því í þingskapalögum.