151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

ferðagjöf.

776. mál
[15:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða framlengingu eða breytingu á lögum um ferðagjöf, það er 5.000 kr. ferðagjöf sem hér er komin aftur. Eftir því sem mér skilst á ráðherra eru einhver hundruð milljóna ógreiddar af síðustu ferðagjöf. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekki komið til álita að nýta þær og senda kannski út tilkynningu um það til þeirra sem hafa ekki nýtt ferðagjöfina og þeir fjármunir sem þar eru undir hefðu verið nýttir til að auka greiðslur til þeirra sem eru á félagsbótum, til öryrkja og atvinnulausra þannig að þeir hefðu meiri möguleika á því að ferðast innan lands heldur en þeir hafa í dag. Við gerum okkur alveg fulla grein fyrir því að 5.000 kr. er ekki stór upphæð og þar af leiðandi mun sennilega stærsti hópur þessara einstaklinga nýta þetta bara innan ákveðins radíuss frá sínu heimili, ekki ferðast fyrir þetta. Kom heldur ekki til umræðu að hafa þessa ferðagjöf hreinlega tekjutengda, gefa sem sagt hærri upphæð til þeirra sem hafa minnst og sleppa því að láta hátekjufólk fá hana, sem hefur enga þörf fyrir þessa gjöf? Það segir sig sjálft að ef við ætlum að hvetja til ferðalaga þurfum við auðvitað að hvetja þá sem hafa minnst. Hinir sem hafa það best, ég held að það þurfi ekkert að hvetja þá, þeir geta ferðast ef þeir vilja. Kom ekkert svoleiðis til umræðu í sambandi við þessa ferðagjöf?