151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

ferðagjöf.

776. mál
[16:06]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þessi sjónarmið eru vissulega mjög oft uppi á borðum en hér er um að ræða aðgerð sem er ekki félagslegt úrræði. Þetta er ekki félagsleg aðgerð. Þetta er aðgerð til þess að hvetja til frekari afþreyingar og sem innspýting í hagkerfið. Ferðagjöfin er auðvitað ekki eingöngu hugsuð til þess að fólk fari í langt ferðalag og það er ýmiss konar afþreying og hlutir sem hægt er að gera í nærsamfélaginu sem skipta máli fyrir bæði fólkið sem getur nýtt ferðagjöfina og fyrirtæki á svæðinu. Við sjáum það á nýtingu ferðagjafarinnar að það hefur verið þannig. Við erum auðvitað með fjöldann allan af öðrum úrræðum sem eru einmitt til að styðja sérstaklega við til að mynda fjölskyldur með börn, í því tilviki bundið við ákveðnar tekjur, og svo sérstök úrræði líka fyrir þá sem hafa verið lengi á atvinnuleysisbótum og annað slíkt. Þannig að heilt yfir erum við að gera ýmislegt sem allt spilar saman. En þessi aðgerð er almenn og hún er fremur einföld og við vildum halda því þannig. Hún lukkaðist vel í fyrra og ég bind vonir við það að Íslendingar muni njóta góðs af henni núna og nýta hana hvernig sem hentar hverjum og einum, bæði í þágu þeirra og í þágu atvinnugreina og atvinnulífs.