151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni andsvarið síðara sinni. Við erum búin að vera hér í heilt kjörtímabil. Við höfum alveg séð hvað liggur fyrir okkur. Við höfum alveg séð vandann og hann hefur vaxið. En að 6 kr. af hverjum 10 kr. fari í velferðarkerfið, að 60% af öllum okkar krónum fara í velferðarkerfið: Nei, það eru 16% af landsframleiðslu sem fara í það á meðan það er rétt um 31% hjá Finnum. Danir og Svíar eru með um 29% í sitt velferðarkerfi. Við erum langt á eftir flestum Norðurlöndum þegar kemur að því hvað við leggjum í velferð, því miður.

Ég hef svo sem ekkert meira að segja nema það væri óskandi að við gætum gert eitthvað núna á lokametrunum og sýnt úr hverju við erum gerð, að við séum ekki bara að tala um það að hér sé fátækt og börnin okkar eigi bágt, geti ekki sinnt tómstundum. Bíddu þangað til á morgun, Gunna mín, mamma á ekki pening. Má ég fara í fótbolta pabbi? Ekki í sumar, kannski næsta sumar, við eigum ekki pening. Þetta er sárara en tárum taki, virðulegi forseti. Ég hvet alla ráðamenn til að taka utan um framtíðina okkar, börnin okkar, taka niður alla biðlista, koma í veg fyrir að fólk standi í röðum og biðji um mat. Ég er bara með ákall til stjórnvalda um að útrýma fátækt.