151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[13:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessi fjármálaáætlun var lögð fram við afar sérstakar aðstæður, ekki bara það að stutt er til kosninga heldur var gengið frá fyrri fjármálaáætlun fyrir nokkrum mánuðum eða undir lok síðasta árs vegna heimsfaraldursins. Það leiddi til þess að við beindum sjónum að stóru myndinni í þessari áætlun og við drögum upp þá mynd að við getum vel unnið okkur út úr þessum faraldri af mjög miklum styrk. Það er bráðnauðsynlegt að bera skynbragð á það hvaða ytri aðstæður það voru sem gerðu okkur kleift að beita ríkisfjármálunum af krafti í einni mestu efnahagslægð sem við höfum lent í. Það var allt saman byggt á stefnu sem tryggði lágar skuldir ríkissjóðs, að viðnámsþróttur væri í fjármálakerfinu, að Seðlabankinn hefði svigrúm til að beita peningastefnunni þegar á þyrfti að halda. Í þessari fjármálaáætlun er sagt: Um leið og það birtir til þá ber okkur að undirbyggja sambærilega stefnumörkun og (Forseti hringir.) tryggja sterka stöðu ríkissjóðs til framtíðar samhliða því að við sinnum mikilvægum samfélagslegum verkefnum.