151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

störf þingsins.

[13:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Við þinglok finnst mér áhugavert að spjalla aðeins um samstarf og pólitík. Það var umræða hér á þingi í gær, í andsvörum, um sýndarmennsku í pólitík og kom ýmislegt í ljós þar sem við sjáum kannski bak við luktar dyr o.s.frv., þar er ýmislegt sagt sem er síðan ekki sagt á nákvæmlega sama hátt þegar kemur í ræðustól. Við Píratar höfum ítrekað talað um að við séum ekki tilbúin í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eða Miðflokk um völd. Við erum hins vegar alltaf til í samstarf um málefni. Ef fólk er tilbúið til þess að koma á málefnalegan hátt með rökstuðning fyrir góðum málum þá erum við alltaf tilbúin til að hlusta. En það er oft brugðist við því á mjög undarlegan hátt þegar við segjum að við viljum ekki fara í ríkisstjórnarsamstarf með þeim flokkum sem ég nefndi og talað um einhvers konar útilokun og eineltistilburði eða eitthvað svoleiðis. En það er náttúrlega þannig að þau sem sitja á valdastólum sinna þjónustuhlutverki. Það er enginn sem á einhvern rétt á valdastólum og það á enginn heimtingu á því að allir aðrir verði að styðja þá til valda því að við eigum að beita málefnalegum rökstuðningi til þess að koma málum okkar á framfæri. Þar hefur það sýnt sig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki farið vel með völd. Öll einstök siðferðileg álitamál á undanförnum árum hafa verið á þeirra ábyrgð. Hvað málefnin varðar, þó að Miðflokkurinn segist vera með skynsemi og rökhyggju að vopni í sínum málflutningi, þá er einmitt ósamræmi þar miðað við það sem við heyrum baktjaldamegin og síðan þess sem heyrist í ræðustól þingsins, þannig að við treystum þeim einfaldlega ekki til að standa við orð sín. Þar af leiðandi hlustum við ekki á eitthvað sem segist vera skynsemis- og rökhyggja en er það síðan ekki þegar allt kemur til alls.